Fljótið klýfur fold og merkur háar; fleygar öldur­dúfur vængjabláar bera af frumskóg fréttir, æfiþætti, fylgja ljósblik þeirra vængjaslætti. Mörkin kliðar ótal rómum rödduð, rís hún sumri fædd og laufi hödduð. Mösurviður vestan fljóts, en austan veikan grunn á björk en merginn hraustan.


GUTTORMUR J. GUTTORMSSON

ÍSLENDINGAFLJÓT

Fljótið klýfur fold og merkur háar;

fleygar öldur ­ dúfur vængjabláar

bera af frumskóg fréttir, æfiþætti,

fylgja ljósblik þeirra vængjaslætti.

Mörkin kliðar ótal rómum rödduð,

rís hún sumri fædd og laufi hödduð.

Mösurviður vestan fljóts, en austan

veikan grunn á björk en merginn hraustan.



Unz að laufrén fremstu gátu flotið,

fljotið hefur stækkað, veg sér brotið;

fangi þess af foldu heiman tekin

fundust þau á aðra ströndu rekin.

Kvistir upp þar komu af föstum rótum,

Kendust þeir af ættar sinnar mótum,

­ Mösurblöðum björkin eigi tjaldar,

bjarkalaufi mösur eigi faldar.



Tæpt á bökkum bjarkir hafa staðið,

bjart en tæft er milli þeirra vaðið.

Norðanstorminn þær hafa lengi þolað,

þeim hefur fljótið eigi burtu skolað;

hlaðnar snjó og ísing norðuráttar

enn þær njóta sumarlífs og máttar,

jafnt í byl og blíðum enn þær standa

beinar ­ þessar dætur norðurlanda.



Yfir fljótið haldast þær í hendur,

handabandi samantengja strendur,

andi blær, þær beggja megin álsins

birta allt með hljómi sama málsins;

lit og svip og sömu lögum háðar

sífelt meðan uppi standa báðar;

sömu lindum laugast þeirra fætur,

landi fastar jafnt eru þeirra rætur.

Guttormur J. Guttormsson, 1878-1976, var bóndi og skáld í Riverton á Nýja-Íslandi í Kanada. Eftir hann liggja fimm ljóðabækur og þykir honum stundum svipa talsvert til Stephans G. Stephanssonar. Þekktasta kvæði Guttorms er Sandy bar , sem fjallar eins og mörg önnur kvæða hans um landnám Íslendinga í Vesturheimi.