Ég stend fyrir spegli og strýk mitt hár, sem stormurinn lék um í fjórtán ár. Ó, yrði hver dropi, hvert daggartár, að djásnum og óskasteinum. Það er eitthvað, sem hefur að mér sótt, líkt og ilmur frá skógargreinum... Ég vakti í nótt, - ég veit það er ljótt og vil ekki segja það neinum.

YNGISMEY

Ég stend fyrir spegli og strýk mitt hár,

sem stormurinn lék um í fjórtán ár.

Ó, yrði hver dropi, hvert daggartár,

að djásnum og óskasteinum.

Það er eitthvað, sem hefur að mér sótt,

líkt og ilmur frá skógargreinum ...

Ég vakti í nótt, - ég veit það er ljótt

og vil ekki segja það neinum.- -

Er móðirin blessar börnin smá

og blómin fræjum í jörðu sá,

þá vaknar hjá mér hin villta þrá ...

Öll veröldin fer að kalla.

Ég þori ekki að segja neinum neitt.

En nóttin, hún skilur alla.

Um allt, sem er þreytt og þráir heitt,

vefst þögn hinna bláu fjalla.

Davíð Stefánsson.