SAMHERJI sendi í gær út tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands um að félagið hefði fjárfest í eigin hlutabréfum fyrir tæplega 42 milljónir króna að nafnverði. Í hálffimm fréttum Búnaðarbankans í gær er þess getið að út frá eiginfjárhlutfalli Samherja, þá sé áhugavert að velta fyrir sér ástæðu kaupanna.
Samherji kaupir eigin bréf
SAMHERJI sendi í gær út tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands um að félagið hefði fjárfest í eigin hlutabréfum fyrir tæplega 42 milljónir króna að nafnverði. Í hálffimm fréttum Búnaðarbankans í gær er þess getið að út frá eiginfjárhlutfalli Samherja, þá sé áhugavert að velta fyrir sér ástæðu kaupanna. Nefndar eru tvær ástæður fyrir fjárfestingu félagsins á eigin bréfum; Í fyrsta lagi geti verið að félagið sé að undirbúa sameiningu við annað sjávarútvegsfyrirtæki sem telja megi líklegustu skýringuna þar sem mikil umræða hafi verið um sameiningar í greininni að undanförnu. Í öðru lagi geti verið að stjórnendur Samherja telji að bréf félagsins séu á undirverði og því um góðan fjárfestingarkost að ræða. Ljóst er að eiginfjárhlutfall félagsins veikist við kaupin.