VÍKVERJA er ljóst að góðæri ríkir í landinu. Að vísu hefur afrakstur góðærisins ekki skilað sér beint í launaumslag Víkverja, nema að mjög takmörkuðu leyti, en hann hefur á undanförnum árum verið að losna úr húsnæðisskuldafeninu og það munar um minna. Víkverji hefur því meira umleikis nú en oftast áður og er þokkalega sáttur við lífið og tilveruna, þannig séð.
VÍKVERJA er ljóst að góðæri ríkir í landinu. Að vísu hefur afrakstur góðærisins ekki skilað sér beint í launaumslag Víkverja, nema að mjög takmörkuðu leyti, en hann hefur á undanförnum árum verið að losna úr húsnæðisskuldafeninu og það munar um minna. Víkverji hefur því meira umleikis nú en oftast áður og er þokkalega sáttur við lífið og tilveruna, þannig séð. Víkverja virðist líka, þegar hann lítur í kringum sig, að kaupgeta almennings hafi aukist talsvert á undanförnum árum, miðað við það sem var í upphafi þessa áratugar.

Bættur fjárhagur fólks er auðvitað af hinu góða, en getur þó haft í för með sér ýmsar aukaverkanir. Mönnum hættir til að taka ógætileg hliðarspor og spenna bogann óþarflega hátt með eyðslusemi og kæruleysi í peningamálum. Hjá Víkverja hefur þetta meðal annars komið fram í því að hann hefur endurnýjað hjá sér ýmis heimilistæki, sem kannski hefur ekki verið brýn þörf á, og hann er hættur að nenna að fara í Bónus til að gera hagstæðari matarinnkaup, eins og hann gerði fyrir nokkrum árum. Þannig slær góðærið á verðskyn almennings og þeir sem stjórna vöruverðinu eru vísir til að ganga á lagið, enda löng hefð fyrir því að íslenskir neytendur láti bjóða sér hvað sem er þegar verðlagsmál eru annars vegar. Þess vegna er vöruverð mun hærra á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Í þessum efnum geta neytendur sjálfum sér um kennt.





ÞÓTT Víkverji sé þokkalega sáttur með sinn hlut finnst honum samt sem góðærið hafi að sumu leyti farið framhjá honum. Hann hefur það á tilfinningunni að hann sé að missa af einhverju. Kannski stafar það af því að hann hefur aldrei kunnað að fara með peninga, hefur ekkert vit á verðbréfamörkuðum og ber ekkert skynbragð á hagvöxt og hagnað. Víkverji getur því engu um kennt nema eigin aulahætti að hann er utanveltu í dansinum í kringum gullkálfinn. Hann er með öðrum orðum fífl í peningamálum.

Hávar Sigurjónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, lýsti þessu fyrirbrigði vel í ágætri viðhorfsgrein sinni, "Íslenska gullæðið" í blaðinu nýverið svohljóðandi: "Hér ríkir orðið það merkilega viðhorf að þeir sem ekki kunna að græða séu einfaldlega fífl. Þeir sem leggja sig niður við kennslu til að lifa á því eru fífl, þeir sem leggja sig niður við að gæta barna til að lifa af því eru fífl, þeir sem yfirhöfuð leggja sig niður við að vinna láglaunastörf til að lifa á þeim eru fífl, því allir aðrir hafa vit á að gera eitthvað annað ábatasamara." Í samræmi við þessar staðhæfingar er Víkverja ljóst að það er auðvitað ekkert annað en fábjánaháttur af honum sjálfum að hafa ekki vit á að notfæra sér góðærið til að græða á því.





VÍKVERJI sá sem skrifar pistil dagsins rak upp mikið ramakvein hér á dögunum þegar bensínverðið hækkaði um rúmar fimm krónur á lítrann. Hækkunin var sögð óhjákvæmileg vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði og engin ástæða til að vefengja það. Nú hafa hins vegar þau tíðindi spurst út að heimsmarkaðsverð hafi lækkað aftur og því viðbúið að sú lækkun skili sér innan tíðar í lækkandi bensínverði hér á landi ­ eða hvað?

Það fer vitaskuld eftir birgðastöðunni, en brögð hafa verið að því á undanförnum áratugum að lækkun heimsmarkaðsverðs á bensíni hafi skilað sér seint og illa inn í verðlagið og svo óheppilega viljað til að miklar bensínbirgðir hafa jafnan verið til í landinu þegar verðið lækkar á heimsmarkaði. Vonandi hafa olíufélögin ekki verið það óforsjál og seinheppin í þetta skipti að birgja sig svo upp af bensíni á uppsprengda verðinu að birgðirnar endist fram yfir aldamót.