Tilbrigði við heimsþekkt listaverk
SÝNING á verkum Stefáns Jónssonar verður
opnuð í Listasafninu á Akureyri í dag kl. 16.
Stefán Jónsson (f. 1964) er borinn og barnfæddur Akureyringur. Hann stundaði framhaldsnám í myndlist við School of Visual Arts í New York og hefur hin síðari ár búið í Singapúr.
Í fréttatilkynningu segir að gólfskúlptúrar Stefáns séu tilbrigði við heimsþekkt listaverk úr vestrænni listasögu, frá endurreisn til daga impressjónismans, sem hann vinnur meðal annars úr Legókörlum. Verkin mætti því kalla "mynd af mynd" eða list um list. Þannig býður Stefán þunga listasögunnar birginn jafnt sem kröfu nútímalistarinnar um að "gera sífellt eitthvað nýtt". Þegar hin stóru og frægu málverk listasögunnar hafa verið yfirfærð á mælikvarða vinsælla barnaleikfanga kemur útkoman harla spánskt fyrir sjónir. Hægt er að líta á verk Stefáns í samhengi við frummyndirnar eða sem skírskotun frá fjöldaframleiddum Legókörlum til einstaklingseðlis listamanna. Samspil efnisins og meðferðar í skúlptúrunum fjöldaframleiddir plastkarlar á sviði verðmætustu listaverka sögunnar skapa óvenjulegar og skoplegar andstæður.
Sjónauki
Á sama tíma hefst ný röð yfirlitssýninga á vegum safnsins sem hlotið hefur heitið Sjónauki, en í þeim verður ýmsum hugsuðum boðið að rýna í ákveðna þætti myndlistarsögunnar. Á vaðið ríður heimspekingurinn og útvarpsmaðurinn Hjálmar Sveinsson og fjallar um "dauðahvötina".
Sýningarnar eru opnar alla daga nema mánudaga frá kl. 1418 og þeim lýkur sunnudaginn 5. desember.
Flugfélag Íslands er sérstakur stuðningsaðili Listasafnsins á Akureyri.
Dauðahvötin/7
Verk sín vinnur Stefán Jónsson m.a. úr Legókörlum.