STJÓRNARANDSTÆÐINGAR gerðu harða hríð að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við utandagskrárumræður um viðnám við byggðaröskun, sem fram fór á Alþingi á miðvikudag, og sökuðu þeir hana um að reka eyðibyggðastefnu.
Utandagskrárumræða um viðnám við byggðaröskun

Stjórnvöld sökuð um að

reka eyðibyggðastefnu

STJÓRNARANDSTÆÐINGAR gerðu harða hríð að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við utandagskrárumræður um viðnám við byggðaröskun, sem fram fór á Alþingi á miðvikudag, og sökuðu þeir hana um að reka eyðibyggðastefnu. Davíð Oddsson forsætisráðherra mæltist hins vegar til þess að menn sameinuðust um að koma byggðaáætlun, sem gerð hefði verið í góðri sátt, í framkvæmd æsingalaust og af fullri festu.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, var ómyrkur í máli í framsöguræðu sinni en það var hann sem fór fram á utandagskrárumræðurnar. Hann rakti nýbirtar tölur Hagstofu Íslands um búferlaflutninga fyrstu níu mánuði ársins en þar kemur m.a. fram að 1.320 manns hefðu flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á þessu tímabili, eða u.þ.b. fimm manns á hverjum degi.

Kristján gerði einnig að umtalsefni mikinn kostnað sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vegna þessara búferlaflutninga og gagnrýndi harðlega byggðastefnu núverandi stjórnarflokka. Sagði hann að á valdaárum þeirra hefðu tæplega níu þúsund manns flutt frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

"Hér áður fyrr var hægt að líta á Framsóknarflokkinn sem landsbyggðarflokk en það er ekki lengur hægt. Svik og gleymska framsóknarmanna í byggðamálum er alger. Sjálfstæðismenn yppta öxlum og hafa einnig gleymt landsbyggðinni, enda uppteknir við að breiða út fagnaðarerindið um góðærið og reiknaðan metafgang af væntanlegum fjárlögum," sagði hann m.a.

Skammur tími sagður til stefnu

Margir þingmanna stjórnarandstöðunnar kvöddu sér hljóðs í umræðum og m.a. sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að ófremdarástand blasti við í byggðamálum. Fullyrti hann að skammur tími væri til stefnu ef bregðast ætti við því byggðahrun blasti við á mörgum stöðum innan 15 ára.

Sighvatur Björgvinsson, Samfylkingu, sagði að ríkisstjórnin ætti mikla sök á því hvernig komið væri og Jóhann Ársælsson, Samfylkingu, sagði stjórnina reka "eyðibyggðastefnu". Árni Steinar Jóhannsson, Vinstri grænum, sakaði stjórnvöld um að hafa vanrækt að móta stefnu í innanríkismálum og Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, hélt því fram að orsök "landeyðingarinnar" væri sjávarútvegsstefna stjórnarflokkanna.

Einar Már Sigurðarson, Samfylkingu, taldi hins vegar að um vendipunkt hefði verið að ræða í umræðu um byggðavandann þegar samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefðu á fundi sínum um síðustu helgi samþykkt ályktun þar sem kallað var á aðstoð frá ríkisvaldinu til að geta tekið við þeim fjölda fólks sem streymdi til höfuðborgarsvæðisins.

Menn sameinist um að fylgja byggðaáætlun eftir

Í andsvari við ræðu Kristjáns L. Möllers sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem jafnframt er ráðherra byggðamála, það rétt að of mikið kvæði að flutningi fólks til höfuðborgarsvæðisins. Hann sagði slíka fólksflutninga hins vegar eiga sér skýringar, breytingar hefðu orðið á atvinnuháttum og viðhorf fólks hefðu breyst.

Forsætisráðherra lagði áherslu á að nýrra leiða yrði leitað, fundnar yrðu nýjar atvinnugreinar og landsbyggðarbæjum skapað nýtt hlutverk. Undir þetta tók Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokks. Hjálmar Jónsson, Sjálfstæðisflokki, sagði hins vegar "grátklökkan æsing" Kristjáns L. Möller ekki styrkja byggð í landinu. Menn yrðu að hrinda byggðaáætlun í framkvæmd en ekki að kenna öðrum um eða frýja sig ábyrgð.

Ísólfur Gylfi Pálmason, Framsóknarflokki, lagði áherslu á að um sameiginlegan þjóðarvanda væri að ræða sem taka þyrfti á hleypidómalaust og undir þau ummæli tók Davíð Oddsson forsætisráðherra í lokaorðum sínum þegar hann fullyrti að fullur vilji væri til þess meðal stjórnarflokkanna að snúa vörn í sókn. Sagði hann að búið væri að samþykkja nýja byggðaáætlun og að hennar myndi sjá stað.

"Og ég held að við ættum að strengja þess heit hér og nú, eins og við gerðum þá þessi áætlun var í undirbúningi, að fylgja henni fram hleypidómalaus, æsingalaust og af fullri festu og eindrægni. Þá munum við sjá árangur," sagði forsætisráðherra m.a.