HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt mann á fimmtugsaldri til fjögurra mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, og til greiðslu 3,5 milljóna króna sektar til ríkissjóðs fyrir að hafa svikið allháar fjárhæðir undan tekju- og virðisaukaskatti. Við ákvörðun refsingar leit Hæstiréttur m.a.
3,5 milljónir í sekt vegna skattsvika HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt mann á fimmtugsaldri til fjögurra mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, og til greiðslu 3,5 milljóna króna sektar til ríkissjóðs fyrir að hafa svikið allháar fjárhæðir undan tekju- og virðisaukaskatti. Við ákvörðun refsingar leit Hæstiréttur m.a. til bágs heilsufars mannsins, sem og þess að verulegur dráttur varð á meðferð málsins í höndum skattyfirvalda. Maðurinn rak eigið fyrirtæki frá 1992 til 1995. Hann var ákærður fyrir að hafa komið sér undan greiðslu virðisaukaskatts, fyrir að færa virðisaukaskattskýrslur ranglega og fyrir að telja tekjur sínar ekki rétt fram. Alls kom hann sér undan að greiða nær 8 milljónir króna í opinber gjöld. Hæstiréttur segir brotin hafa verið framin á löngum tíma og sýnilega af ásetningi. Maðurinn hafi hins vegar ekki áður sætt refsingu. Þá bendir Hæstiréttur á, að skattyfirvöld hafi lokið rannsókn á brotum mannsins með skýrslu 15. nóvember 1995, en hafi þó ekki beint málinu til ríkislögreglustjóra fyrr en með bréfi 25. júní 1998. Að teknu tilliti til þessa, sem og bágs heilsufars mannsins, staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Sektina hækkaði Hæstiréttur hins vegar.