Náttúruperlur eins og goshverir, heitar laugar, fossar, jökullón og ósnortin víðerni eru mikil verðmæti í nútímanum og landshlutar án slíkra hlunninda eiga á hættu að ferðamannastraumurinn fari hjá garði.
BLÁA LÓNIÐ

LJÓSMYNDIR OG TEXTI: GÍSLI SIGURÐSSON

UMHVERFISMÓTUN OG ARKITEKTÚR Í ILLAHRAUNI

Bláa lónið er dæmi um manngerðan ferðamannastað og náttúruundur sem menn hafa búið til. Nýju byggingarnar þar og umhverfismótunin öll eru til fyrirmyndar og sæta tíðindum í íslenzkri byggingarlist síðari ára.

Náttúruperlur eins og goshverir, heitar laugar, fossar, jökullón og ósnortin víðerni eru mikil verðmæti í nútímanum og landshlutar án slíkra hlunninda eiga á hættu að ferðamannastraumurinn fari hjá garði. Að búa til náttúruundur hefur ekki verið talið gerlegt, en hvað hefur komið í ljós? Að það er að minnsta kosti til ein markverð undantekning frá þeirri reglu: Bláa lónið hjá virkjunarstað Hitaveitu Suðurnesja. Það sem er þó enn merkilegra er, að það mikla verðmæti sem ætla má að hafi orðið til þarna, hefur þjóðin eignast eins og hvern annan happdrættisvinning. Það sem í fyrstu leit út fyrir að verða til ama, varð sannkallaður happafengur: Heitur jarðsjór með þessum fallega, bláa lit, dulmagnaðri fegurð og lækningamætti.

Afrennsli frá virkjuninni virtist í fyrstu ekki vera annað en mengunarvandamál; kísill sem flæddi út um allt hraun. Það var snjallræði að mynda lón, en enginn vissi þá að þarna yrði brátt vinsæll ferðamannastaður. Bláa lónið var frumstætt í fyrstu; skemmtilega frumstætt fannst sumum, og leizt ekkert á blikuna þegar kynnt var að nýtt blátt lón með boðlegri nútíma aðstöðu mundi koma í stað hins upprunalega.Nú þegar barnið er komið á koppinn og hægt að virða fyrir sér arkitektúr og umhverfismótun er ekki hægt annað en að fagna. Hér hefur verið komið til móts við þá náttúruauðlegð sem felst heitum jarðsjó í fallegu hrauni með byggingum sem sem eru á borð við það bezta í íslenzkri samtíma byggingarlist að viðbættri umhverfismótun sem hlýtur að teljast til fyrirmyndar. Virðing fyrir náttúrunni er hvarvetna í fyrirrúmi. Nýja lónið er jafn eðlilegur hluti hennar og áður var og þess hefur verið gætt að byggingarnar gnæfi ekki yfir umhverfið og séu í sátt við hraunið.

Illahraun, sem talið er að hafi runnið 1226, er yngsta jarðmyndun á Reykjanesskaga. Hraunið hefur myndað sjö metra háan kant og verður náttúruleg fyrirstaða við lónið, sem fyllir slakka norðan við hraunkantinn. Ofan af hraunbrúninni er ævintýralegt að líta yfir lónið, ekki sízt árla morguns, þegar gufan og geislar sólarinnar bregða sér í morgunleikfimi. Þá sést til dæmis að hraunhóll, sem fyrir var í slakkanum, var látinn standa og hann myndar fallega hrauneyju sem gestir geta gengið umhverfis á trébrúm.

Umhverfismótunin fólst einnig í því að tveggja mannhæða djúp tröð var grafin í hraunið frá bílastæðinu og kemur á óvart að mannvirki Bláa lónsins sjást alls ekki þaðan. Tröðin sveigist eftir hraunlautum frá bílastæðinu að húsinu og gestir Bláa lónsins verða að ganga síðasta spölinn. Þeir ættu sannarlega að geta notið návistar við hraunið báðum megin traðarinnar, en þetta gengur reyndar þvert á þá hugmynd að bílastæði þurfi helzt að vera sem næst húsdyrum til þess að enginn gangi neitt að óþörfu.Grímur Sæmundsen læknir hefur verið framkvæmdastjóri Bláa lónsins h/f frá stofnun þess 1992 og hann hefur borðið hita og þunga af skipulagningu og framkvæmd. Hugmyndin var búin að gerjast í langan tíma, en aðal arkitekt var Sigríður Sigþórsdóttir. Verkið var unnið á Vinustofu arkitekta ehf þar sem einnig komu að því arkitektarnir Hróbjartur Hróbjartsson, Richard Ólafur Briem og Sigurður Björgúlfsson. Síðar komu að umhverfishönnuninni Ólafur Melsted og Hermann Georg Gunnlaugsson, báðir landslagsarkitektar. Þeir áttu sinn þátt i að móta umhverfið ásamt Sigríði Sigþórsdóttur sem þar var fremst í flokki.

Framkvæmdin var einskonar "Blitzkrieg" eða leifturstríð eins og þýzkir segja. Byrjað var í marz 1998, en húsið tekið formlega í notkun 15. júlí síðastliðið sumar. Þetta er ótrúlegur hraði á flókinni framkvæmd. Nú er lónið bláa ekki lengur afrensli frá stöðvarhúsi Hitaveitu Suðurnesja, heldur er jarðsjór tekinn beint í lögn inni í orkuverinu og leiddur í nýja lónið, 160 gráða heitur og undir og undir fimm loftþynbgda þrýstingi. Lónið er að flatarmáli 5000 fermetrar og allt mannvirkið, húsið, lónið og umhverfismótunin, kostaði um 500 milljónir króna.

Jarðgufubað í tilbúnum smáhelli er vinsælt og inn í annan helli er hægt að synda; einnig út í lónið úr innilauginni. Eitt af því sem þótti töfrandi við gamla Bláa lónið var gufan. Hefði áreiðanlega þótt vanta gott orð í sálminn ef gufustrókarnir sæust aðeins í fjarlægð. En við því var séð. Ekki með því að leiða gufuna á nýja staðinn, heldur var jarðsjór leiddur í hólma í lóninu þar sem til hefur orðið gufuhver og baðar bæði húsið og lónið í gufu eftir því hvernig vindurinn blæs.

Þetta var tæknileg nýsköpun og einn megin áhættuþátturinn. Heiðurinn af þessu eiga Jónas Matthíasson verkfræðingur og Alfreð Albertsson aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja.

Það var áhyggjuefni að hraunbotninn, svo gljúpur sem hann er, mundi gleypa vatnið. Botn lónsins var þéttaður með sandi, en raunar hafði orðið nokkur þétting með því að affall frá gamla lóninu hafði runnið í slakkann. Náttúruleg niðurföll utan lónsvæðisins taka síðan við vatninu. Smám saman er verið að hleypa vatni í lautir sem liggja norðan að húsinu og láta þær þéttast.Samstarf Sigríðar Sigþórsdóttur og Gríms hófst snemma í þessu ferli, segir hann. Sigríður var búin að afla sér mikillar þekkingar á áhrifum Bláa lónsins á byggingarefi og þessvegna varð ofaná að nota brasilískan jatóba-við í allt tréverk. Hann er gífurlega harður; að saga hann er eins og að saga steinsteypu. Þetta er afar dýr viður, oft notaður í bryggjur og brýr því endingin er góð og þetta tréverk á þrátt fyrir ágang gufunnar og seltu frá jarðsjónum að endast tvo næstu áratugi. Burðargrind hússins er hinsvegar úr stáli.

Húsið er tvískipt; annarsvegar er baðálman með búningsherbergjum á tveimur hæðum og innilaug, en hinsvegar stór veitingasalur með glervegg sem snýr út að lóninu; einnig ferðamannaverzlun. Úr veitingasal er gengið upp á efri hæð; þar eru m.a. skrifstofur og rúmgóður fundarsalur. Flatarmál hússins er 2700 fermetrar, en talan segir þó ekki allt um stærð þess því mikil hæð er undir loft í allri veitingaálmunni.

Það sem fyrst vekur athygli innandyra er að annar langveggur veitingaálmunnar er hlaðinn úr hraunhellum. Tekið var hraungrýti af svæðinu og sagað í 10 sm þykkt. Það var mikið verk sem starfsmenn verktaksns, Verkafls, inntu vel af hendi. Bakatil eru hraunhellurnar bundnar með steinsteypu. Á gólfunum í veitingaálmunni eru grágrýtishellur og var sá efniviður sóttur austur í Hrunamannahrepp. Að utanverðu má segja að jatóba-viðurinn og gler séu í aðalhlutverki og stendur hvorttveggja fallega með hraunhelluvegg sem nær út úr húsinu, svo og ljósum steinsteyptum vegghlutum sem snúa að lóninu. Þeir eru múraðir með sérstakri múrblöndu sem tengir bygginguna við kísilútfellingarnar.Hægt er að taka á móti 900 manns í einu í Bláa lónið, ef notaðir eru úti-búningsklefar. Aðsóknin var þó slík í sumar að þessi aðstaða dugar vart þegar mest er um að vera, en 60% allra erlendra ferðamanna á síðastliðnu sumri komu í Bláa lónið. Aukningin liggur þó ekki sízt í því að Íslendingar fjölmenntu meir en áður á staðinn.

Hugmyndin er að láta ekki hér við sitja, heldur er hafinn undirbúningur að byggingu heilsulindarhótels við Bláa lónið. Það verður byggt inn í hraunbrúnina sem gnæfir yfir lónið að sunnanverðu; látið falla að umhverfinu eins og kostur er. Þar verður auk fjölþættrar fegrunar- og heilsuþjónustu vegleg funda- og ráðstefnuaðstaða, svo og a.m.k. 100 gistiherbergi. Í tengslum við þetta heilsulindarhótel verður meðferðarstöð fyrir húðsjúkdóma, en nú þegar er starfandi göngudeild fyrir fólk með húðsjúkdóma við Bláa lónið.

Vart er hægt að hugsa sér heppilegri stað fyrir slík náttúrugæði sem Bláa lónið er en einmitt á Reykjanesskaga, í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll og aðeins rúmlega hálftíma akstursleið frá höfuðborgarsvæðinu.

Með Bláa lóninu er gert út á hreinleika, heilsubót og náttúruvernd. Aðsókn og frábærar undirgektir gefa góða vísbendingu um arðbæran rekstur. Ólíkt er það hugnanlegra keppikefli en stóriðja, sem virðist orðin að þráhyggju hjá stjórnmálmönnum.

Við Bláa lónið. Veitingaálma til vinstri, baðálma hægra megin. Brúin liggur út í hraunhólma í lóninu.

Í morgunsól er ævintýralegt að líta austur yfir lónið. Gufustrókarnir eru úr gufuhver sem búinn var til í hólma í lóninu.

Forhlið veitingaálmunnar sem snýr að lóninu er að mestu úr gleri og jatóba-viði frá Brasilíu.

Bakveggur veitingaálmunnar nær út úr húsinu, en hann er allur hlaðinn úr söguðum hraunhellum.

Veitingasalur Bláa lónsins.

Útsýni yfir Bláa lónið og byggingarnar austan frá.

Bláa lónið séð ofan af hraunbrúninni fyrir sunnan. Í þá hraunbrún er fyrirhugað að heilsulindahótel verði byggt.

Vík inn úr lóninu og tilbúinn hraunhellir sem hægt er að synda inn í.

Hrauntröðin sem liggur frá bílastæðinu að Bláa lóninu.

Innilaug í baðálmu Bláa lónsins. Úr henni er hægt að synda út í lónið.

Göngubrýr liggja út að hraunhólmanum í lóninu og meðfram honum.