FÉLAG eldri borgara í Garðabæ og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hafa haldið saman tölvunámskeið um nokkurt skeið. Nú stendur yfir eitt slíkt þar sem kennd eru undirstöðuatriði í notkun tölvupósts og Netsins. Námskeið þetta er reyndar framhaldsnámskeið en þátttakendur hafa þegar farið á námskeið þar sem kennd var almenn tölvunotkun og vinna í Windowsumhverfi.
Áhugasamir

og ánægðir nemendur

Garðabær

FÉLAG eldri borgara í Garðabæ og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hafa haldið saman tölvunámskeið um nokkurt skeið. Nú stendur yfir eitt slíkt þar sem kennd eru undirstöðuatriði í notkun tölvupósts og Netsins. Námskeið þetta er reyndar framhaldsnámskeið en þátttakendur hafa þegar farið á námskeið þar sem kennd var almenn tölvunotkun og vinna í Windowsumhverfi.

Í hverjum hópi eru 20 til 25 þátttakendur og segir Hallgrímur Arnalds kennari á námskeiðinu að nemendurnir séu virkilega áhugasamir og ánægðir. Þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins litu inn á námskeiðið og spurði hópinn hvort það mætti taka af þeim mynd, heyrðist hrópað úr einu sætinu "Já, alveg sjálfsagt, en bara ef hún verður líka birt á Netinu!"

Forvitnin rekur fólk af stað

Það ríkir augljóslega skemmtilegur andi á námskeiðinu og mikill vilji til að tileinka sér það sem þar er kennt. Ein kona segir forvitnina hafa rekið sig á námskeiðið. "Maður hefur heyrt svo mikið um alla þá möguleika sem búa í tölvum og mér hefur fundist þetta hljóma allt svo spennandi. Ég hafði samt ekki hugmynd um hvað þetta væri nákvæmlega og fór því á námskeiðið til að fá að kynnast því."

Önnur kona segir það að læra á tölvur alveg ótrúlega spennandi en samt svolítið erfitt. "Það er alveg meiriháttar skemmtilegt að fá tækifæri til að kynnast þessu, maður veit ekki alveg hvað verið er að fara út í, en hefur heyrt að þetta sé eitthvað alveg ótrúlega spennandi. En ég verð þó að viðurkenna að þetta er ekki alltaf auðvelt og maður verður stundum alveg sveittur við þetta."

Eins og ófleygir hrafnsungar

Einn maður segir að þar sem svo margar stofnanir og fyrirtæki séu búin að færa þjónustu sína að miklu leyti yfir á Netið, væri nauðsynlegt að kunna undirstöðuatriði í notkun þess og segir hann gaman að geta náð svona í skottið á tölvubyltingunni. Sessunautur hans tekur undir það og sagðist hafa gripið þetta tækifæri til að læra á tölvur fegins hendi. "Ég hafði lengi gert mér grein fyrir því að maður væri lengst aftur í öldum með því að kunna ekki á tölvur og að það væri í raun nauðsynlegt til að geta fylgst með því sem er að gerast í nútímanum. Fólk sem ekkert kann á tölvur er hreinlega eins og ófleygir hrafnsungar."

Að vera í sambandi við börnin

Annar maður segir að dóttir hans hafi bent honum á námskeiðið. "Ég hafði nú ekki mikinn áhuga fyrst þegar dóttir mín sagði mér frá þessu en við nánari umhugsun leist mér betur á hugmyndina og nú sé ég aldeilis ekki eftir að hafa farið." Enn annar maður segist hafa farið til að ná betra sambandi við barnabörnin sín. "Ég kom meðal annars til að geta fylgst betur með því sem barnabörnin mín eru að gera. Þau eru farin að tala sérstakt tungumál og með því að læra aðeins inn á tölvur get ég vonandi skilið þau betur."

Þó nokkrir af þátttakendunum segjast vilja læra að senda tölvupóst til að geta verið í sambandi við börn sín og barnabörn sem búa í útlöndum. Þau segja börn þeirra sem séu í námi erlendis vera með tölvupóst og að þau séu margoft búin að segja þeim hvað sé sniðugt og auðvelt að vera í góðu sambandi með þeim hætti. Eins eiga sumir vini erlendis og segist einn maður nýlega hafa endurnýjað kynni við gamla vini í Bandaríkjunum. "Þeir senda mér alltaf jólakort og undanfarin ár hafa þeir skrifað netfang undir nafnið sitt og eftir að ég lærði á tölvupóstinn er ég kominn í samband við þá aftur."

Mikilvægt að gefast ekki upp

Þátttakendur virðast sammála um að erfiðast sé að byrja. Það geti til dæmis verið vandi að ná tökum á því að hreyfa músina rétt og átta sig á því hvernig skjámyndin er uppbyggð og hvaða áhrif það hafi að smella hér og þar á skjánum. En um leið og búið sé að ná tökum á þessum undirstöðuatriðum sé þetta fljótt að koma. Þau brýna því hversu mikilvægt það sé að gefast ekki upp þó að þetta reynist erfitt í fyrstu, það geti tekið nokkurn tíma að átta sig á þessu, en að það sé svo sannarlega þess virði þegar af stað sé farið því á Netinu sé að finna ótrúlega uppsprettu möguleika og fróðleiks að ekki sé minnst á tækifæri til samskipta.Morgunblaðið/Sverrir Rúmlega 20 manns sitja nú tölvunámskeiði fyrir eldri borgara í Garðabæ þar sem kennd eru undirstöðuatriði í notkun tölvupósts og Netsins. Hér sjást nokkrir þátttakenda, en hópurinn leyfði myndatöku á námskeiðinu með því skilyrði að myndin yrði líka birt á Netinu.