Sjálfstraustið eykst
með hverjum leik
NÝLIÐARNIR í úrvalsdeildinni í
körfuknattleik, Hamar frá Hveragerði, hafa komið mest á óvart í upphafi keppnistímabilsins. Liðið hefur unnið alla þrjá fyrstu leiki sína í deildinni og er í efsta sæti. Hafnfirðingurinn Pétur Ingvarsson er þjálfari liðsins og segir hann byrjunina betri en nokkur hefði þorað að vona. "Sjálfstraust leikmanna hefur aukist með hverjum leik og árangurinn er framar okkar björtustu vonum," sagði Pétur, sem einnig leikur með liðinu.
Hamar er tiltölulega nýtt lið í deildinni. Var fyrstu fjögur árin í 2. deild og síðan tvö ár í þeirri fyrstu. Félagið fór síðan upp í úrvalsdeildina eftir síðasta tímabil og byrjunin hefur svo sannarlega farið fram úr björtustu vonum heimamanna og vakið athygli.
Pétur sagði að auðvitað væri alltaf gaman þegar vel gengi. "Okkur var spáð þriðja neðsta sæti í deildinni og því er þessi byrjun mun betri en menn áttu von á. Það áttu fáir von á því að við kæmumst upp í fyrra, en við trúðum því þó alltaf sjálfir. Við erum með nánast sama lið og í fyrra, nema við skiptum um útlending. Létum Úkraínumanninn sem var hjá okkur í fyrra fara og fengum bandaríska leikmanninn Rodney Dean í staðinn. Hann hefur vaxið með hverjum leik og átti mjög góðan leik gegn Tindastóli í fyrrakvöld," sagði Pétur.
Mikill áhugi er á körfubolta í Hveragerði og sagði Pétur hann stafa af því að körfubolti væri eina íþróttagreinin sem væri stunduð þar af einhverju gagni. "Bæjarbúar hafa stutt liðið dyggilega og við erum með allt að 500 áhorfendur á leik og stemmningin er gríðarleg. Ég spilaði lengi með Haukum og þar kynntist ég ekki þessari miklu stemmningu sem er í Hveragerði," sagði Pétur sem stjórnar liðinu annað árið í röð.
Hann sagði að enginn uppalinn Hvergerðingur væri í liðinu, enda íþróttin ung í bænum. "Það er hins vegar mjög öflugt unglingastarf unnið hjá Hamri og þess verður ekki langt að bíða að heimamenn komist í liðið. Við lítum meira á meistaraflokkinn til að ýta undir áhuga hjá þeim yngri í bænum. Unglingastarfið byrjaði fyrir tveimur árum og var tekið enn fastari tökum í fyrra. Það eru um 20 krakkar sem æfa í hverjum flokki og þykir það mjög gott í svona litlu bæjarfélagi. Það er lítið um aðrar íþróttir í bænum og körfuboltinn græðir á því. Krökkunum finnst þetta spennandi og merkilegt starf og vilja taka þátt í því. Ég er mjög ánægður með hvernig staðið er að körfuboltanum í Hveragerði."
Pétur sagðist ekki setja liðinu of há markmið. "Við ætlum fyrst og fremst að reyna að halda okkur í deildinni. Við gleðjumst yfir hverjum einasta sigri, en við eigum líka eftir að tapa í vetur og gerum okkur grein fyrir því. Þó svo að við séum í efsta sæti núna er mótið rétt að byrja. Það er ekki raunhæft markmið að hugsa um einhverja titla á fyrsta ári í efstu deild. Mér finnst Hamar vera með gott lið og meðan við trúum því sjálfir og leggjum hart að okkur er hægt að gera ótrúlegustu hluti."
"Meðalaldur liðsins er í kringum 22 ár og meðalfjöldi leikja í úrvalsdeildinni er um 30 leikir. Þannig að liðið er ekki reynslumikið í efstu deild og hver leikur því afar mikilvæg reynsla. Það er alltaf auðveldara fyrir leikmenn og þjálfara þegar vel gengur. Við erum "spútniklið" deildarinnar það sem af er og við gleðjumst yfir því."
Hvaða lið eru það sem eiga eftir að berjast um Íslandsmeistaratitilinn að þínu mati?
"Það eru Suðurnesjaliðin, Njarðvík, Keflavík og Grindavík og síðan Haukar og KR. Þessi lið geta öll hampað titlinum. Ég held að önnur lið eigi ekki raunhæfa mögleika. Það þarf a.m.k. mikið að breytast til þess."
Morgunblaðið/Ásdís Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, við íþróttakennslu í Hafnarfirði í gær. Hann er kennari við Setbergsskóla. Eftir Val B. Jónatansson