Ráðinn verði jafnréttis- og byggðaþróunarfulltrúi
LANDBÚNAÐARRÁÐUNEYTIÐ
kynnti í gær markmið og framkvæmdaáætlun landbúnaðarráðuneytisins í jafnréttismálum en hún er í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Meðal annars er lagt til að ráðinn verði starfsmaður í ráðuneytið, svokallaður jafnréttis- og byggðaþróunarfulltrúi, sem hefði það á sinni könnu að sinna hagsmunamálum kvenna og jafnréttismálum í landbúnaði, og til að gæta að sérhagsmunum bændastéttarinnar í atvinnuuppbyggingu og atvinnuþróun til sveita.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði í upphafi fréttamannafundar, sem haldinn var í Karphúsinu í gær, að hér væri um að ræða innlegg landbúnaðarráðuneytisins í þá vinnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að jafnrétti kynjanna. Sagðist hann gjarnan vilja auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum landbúnaðarráðuneytisins, sem og áhrif þeirra í landbúnaði almennt, en fram komi í máli Guðna að einungis 2 af 49 fulltrúum á Búnaðarþingi eru konur.
Í máli Önnu Margrétar Stefánsdóttur, sem vann skýrsluna um markmið og framkvæmdaáætlun landbúnaðarráðuneytisins í jafnréttismálum, kom fram að miklar breytingar hefðu orðið í landbúnaði. Þó væri eins og samfélag íslenskra bændakvenna sæti eftir í þróun jafnréttismála. Lagði hún áherslu á að hvetja þyrfti karla og konur til að standa saman að breytingum í þessum efnum því hér væri um mikið hagsmunamál að ræða fyrir bændastéttina í heild sinni.
Áhersla lögð á fimm þætti
Í skýrslu landbúnaðarráðuneytisins um markmið og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins í jafnréttismálum er gert ráð fyrir að einkum verði lögð áhersla á fimm þætti. Þeir fela í sér að félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt verði skoðuð sérstaklega, og gerðar tillögur til úrbóta sé þess þörf. Jafnframt verði unnið upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt, atvinnumál kvenna á landsbyggðinni skoðuð gaumgæfilega og sérstakt átak gert til að fjölga konum í stjórnum og ráðum sem varða landbúnaðarmál. Að endingu verði staða jafnréttismála í landbúnaðarráðuneytinu og stofnunum þess könnuð og í framhaldinu gerð áætlun um hvernig jafna skuli hlut kynjanna.
Morgunblaðið/Golli
Anna Margrét Stefánsdóttir kynnti niðurstöður skýrslu um markmið og framkvæmdaáætlun landbúnaðarráðuneytisins í jafnréttismálum á fundinum í gær.