LISTAMENNIRNIR og vinkonurnar Steina Vasulka skjálistamaður, Anita Hardy Kaslo arkitekt og Sissú Pálsdóttir myndlistarmaður og hönnuður, halda sameiginlega sýningu á neðri hæð Gerðarsafns sem ber heitið "Árþúsunda arkitektúr".
Lífrænn
arkitektúr
LISTAMENNIRNIR og vinkonurnar Steina Vasulka skjálistamaður, Anita Hardy Kaslo arkitekt og Sissú Pálsdóttir myndlistarmaður og hönnuður, halda sameiginlega sýningu á neðri hæð Gerðarsafns sem ber heitið "Árþúsunda arkitektúr".
Listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa búið samtímis í Santa Fe í Nýju-Mexíkó um skeið, en nú hafa leiðir skilist og undirbúningur sýningarinnar hefur farið fram á Netinu undanfarin ár.
Í salnum hefur Sissú byggt upp margskonar form sem hún raðar upp þannig að margbrotnir fletir myndast. Á fletina varpar Steina síðan myndbandsverkum sem hún tók upp hér á landi, á Grænlandi og á Nýja-Sjálandi. Steina segir að hún sé nú í fyrsta skipti að varpa myndum sínum á flöt sem er ekki eggsléttur og fínn. "Þetta er alveg nýtt fyrir mér," segir Steina. Hún segir að á Íslandi hafi hún tekið myndir af ísjaka í Skeiðará, í Nýja-Sjálandi dró hún til dæmis vélina eftir jörðinni til að ná áferð jarðarinnar og á Grænlandi, tók hún myndir í rústum kirkjunnar í Hvalsey. Myndirnar frá öllum stöðunum vann hún síðan áfram í tölvu.
Sissú segir að samstarf listamannanna þriggja og hugmyndavinna hafi byrjað fyrir 2 árum. Hún segir að þó að sýningarheitið vísi í arkitektúr sé ekki átt við arkitektúr í skilningnum hýbýlafræði. "Þetta er arkitektúr sem er hugsaður sem listrænt form og í raun er þetta heimspekileg nálgun á arkitektúrinn. Þetta fjallar um frumtilveru arkitektúrs, áferðarfræði og lífrænan arkitektúr en lífræna hliðin kemur sterkt fram í verkum Anitu."
Anita sýnir ljósmyndaröð sem tekin er í gegnum smásjá. Hún segir að efniviðurinn sé krabbameinsfrumur úr samtímanum og forsögulegt frjókornaduft en þetta efnisval er táknrænt fyrir þau tímamót sem í vændum eru, að hennar mati. "Það sem áður var fallegt verður eyðileggjandi í næstu svipan," segir Anita um efnið í myndunum.
Anita segir að í sínum huga séu myndirnar þó landslagsmyndir, en landið og áhrif þess á byggð og menningu er eitt helsta áhugamál hennar.