Á 500. stjórnarfundi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem haldinn var í byrjun þessa árs var samþykkt eftirfarandi tillaga. Í tilefni af 500. stjórnarfundi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ber upp á fyrstu dögum árs aldraðra,
"Ríkari" vinnustaðir þar sem hinir eldri starfa einnig Starfslok Enn, segir Gissur Pétursson , er mikil þörf fyrir eldra fólk á vinnumarkaði. Á 500. stjórnarfundi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem haldinn var í byrjun þessa árs var samþykkt eftirfarandi tillaga. Í tilefni af 500. stjórnarfundi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ber upp á fyrstu dögum árs aldraðra, hefur stjórnin samþykkt að veita Landssambandi eldri borgara fjárstyrk að upphæð 500 þúsund krónur í þeim tilgangi að beita sér fyrir úrræðum til styrktar stöðu eldra fólks á vinnumarkaði." Landssamband eldri borgara hóf í kjölfar þessarar ákvörðunar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs undirbúning að ráðstefnu um málið í samvinnu við Vinnumálastofnun sem haldin verður 25. október nk. Norræna ráðherranefndin hefur einnig lagt ráðstefnunni lið enda munu hana sækja þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum. MFA ­ Menningar og fræðslusamband alþýðu var ráðið til að vinna að skipulagningu ráðstefnunnar og gagnasöfnun vegna hennar. Markmið ráðstefnunnar er að meta þarfir eldra fólks á vinnumarkaði, hvernig fyrirtæki, hagsmunasamtök og opinberar stofnanir hafa brugðist við þeim og móta í kjölfarið tillögur að úrræðum sem styrkt geta stöðu eldra fólks á vinnumarkaði. Hér er um mjög metnaðarfullt markmið að ræða og því hefur ráðstefnan verið sérstaklega vel undirbúin og æskilegt að hana sæki aðilar sem lagt geta málinu gott lið. Fyrirlesarar á ráðstefnunni verða frá Danmörku og Finnlandi en þessi lönd hafa með skipulögðum hætti reynt að bregðast við þeirri þróun sem að neðan er lýst. Páll Pétursson félagsmálaráðherra mun á ráðstefnunni greina frá stefnu stjórnvalda og framtíðarsýn er varðar málefnið, borgarstjóri Reykjavíkur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, mun fjalla um breytta tíma í starfsmannamálum, fjallað verður um sjónarhorn atvinnurekenda til málsins og stöðu eldra fólks á vinnumarkaðinum almennt. Umræða um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði hefur verið mjög áberandi í nágrannalöndunum enda hafa þau reynt að bregðast við atvinnuleysisvandanum þar með því að lækka stöðugt eftirlaunaaldurinn og rýma þannig til á vinnumarkaðinum fyrir yngra fólki. Í Finnlandi t.a.m. geta einstaklingar byrjað á eftirlaunum við 55 ára aldur. Sama þróun hefur verið í Danmörku og Svíþjóð og öðrum Vestur-Evrópulöndum. Þróun mannfjölda og aldursdreifing hans sýnir hins vegar að samfélögin sem hér um ræðir geta ekki staðið undir svona löngum eftirlaunaaldri og ekki er sýnt að þetta sé haldgóð aðferð í baráttunni við atvinnuleysið. Í Danmörku verða eftir tíu ár 220 þúsund færri yngri og 140 þúsund fleiri eldri í samfélaginu en nú og þar er þessi þróun kölluð "tikkandi eftirlaunasprengjan". Stjórnvöld í þessum löndum eru nú að reyna að snúa þessari þróun í eftirlaunamálum við og það geta verið afar þung spor. Dæmi frá Danmörku sýnir það en þar riðaði ríkisstjórnin til falls á síðasta ári, vegna þeirrar ákvörðunar að hækka eftirlaunaaldur úr 60 í 62 ár. Góðu heilli hefur þessi þróun ekki verið jafnhörð hérlendis og enn er mikil þörf fyrir eldra fólk á vinnumarkaði þó svo að finna megi fyrir hinni vaxandi æskudýrkun hér á landi og oft heyrist af dapurri reynslu fólks sem komið er yfir miðjan aldur við að finna sér störf. Það má öllum vera ljóst að þegar eftirspurn eftir vinnuafli er jafnmikil og hún hefur verið hér undanfarin þrjú ár er nauðsynlegt að halda fólki í vinnu svo lengi sem það getur og hefur áhuga. Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um sveigjanleg starfslok eru afar jákvætt spor í þessa veru. Þar fyrir utan er mikilvægt að styrkja það viðhorf á vinnumarkaði t.d. meðal forvígismanna fyrirtækja og stofnana að hinir eldri búa yfir gífurlegri reynslu sem þarf að miðla til hinna yngri, þeir eru mjög trúir sínum vinnustað og gera vinnustaðina "ríkari" með nærveru sinni þar. Það er von okkar að sú umræða sem stofnað verður til á ráðstefnunni um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði verði gagnlegt viðmið í áframhaldandi vinnu við þetta mikilvæga málefni. Höfundur er forstjóri Vinnumálastofnunar.

Gissur Pétursson