OPNA Norðurlandamótið í karate verður haldið í Laugardalshöll í dag og hefjast úrslit kl. 15.10. Sjö þjóðir eru skráðar til keppni og hafa þær aldrei verið fleiri. Auk Íslands eru það Finnland, Svíþjóð, Noregur, Skotland, Eistland og Norður- Írland. Keppendur eru 56 talsins og verður keppt í kumite og kata.


KARATE / NM

Stefnt

á þrjú

gull

OPNA Norðurlandamótið í karate verður haldið í Laugardalshöll í dag og hefjast úrslit kl. 15.10. Sjö þjóðir eru skráðar til keppni og hafa þær aldrei verið fleiri. Auk Íslands eru það Finnland, Svíþjóð, Noregur, Skotland, Eistland og Norður- Írland. Keppendur eru 56 talsins og verður keppt í kumite og kata.

Ólafur H. Wallevik, formaður Karatesambands Íslands, segir íslenska liðið mjög sterkt og hafi það aldrei átt eins góða möguleika og nú. Þar færu fremstir í flokki, Halldór Svavarsson landsliðsþjálfari, Ingólfur Snorrason, Edda Blöndal og Bjarki Birgisson. Halldór er eini Íslendingurinn sem hefur hampað Norðurlandameistaratitli og er núverandi handhafi titilsins í -70 kg flokki.

"Við erum með mjög gott lið og það hefur verið að standa sig vel á mótum erlendis. Ég geri mér vonir um að við náum í tvenn til þrenn gullverðlaun á mótinu. Halldór er í raun hættur keppni, en ákvað að vera með í liðakeppninni og síðan er hann skráður í einstaklingskeppnina líka. Hann styrkir liðið verulega," sagði Ólafur. Samhliða mótinu verður m.a. sýningaratriði þar sem 300 krakkar munu sýna listir sínar. Að sögn Ólafs er mikill vöxtur í íþróttinni hjá yngri aldurshópunum og má vænta mikils af þeim í framtíðinni.

Danmörk er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki sá sér fært að mæta og sagði Ólafur ástæðuna fyrir því að Danir hafi pantað flugfar með allt of stuttum fyrirvara. Öll sæti hafi verið full með flugi til Íslands á þessum tíma.

Íslenska landsliðið sem keppir í kumite (frjálsum bardaga) er skipað eftirtöldum: Bjarki Birgisson, KFR, Gunnlaugur Sigurðsson, Haukum, Halldór Svavarsson, Fylki, Ingólfur Snorrason, UMFS, Jón Ingi Þorvaldsson, Þórshamri, Edda Lovísa Blöndal og Eydís Líndal Finnbogadóttir, Þórshamri og Sif Grétarsdóttir, Fylki. Vilhjálmur Svan Vilhjálmsson og Ásmundur Ísak Jónsson keppa í kata.

Sýnt verður beint frá mótinu í Ríkissjónvarpinu frá kl. 15.15 til 16.30 í dag.