Hluti byrgis Hitlers finnst í Berlín Engin áform uppi um varðveizlu byrgisins Berlín. AP, Reuters, Daily Telegraph. Á LÓÐ rétt sunnan við Brandenborgarhliðið, þar sem Berlínarmúrinn lá áður,
Hluti byrgis Hitlers finnst í Berlín Engin áform uppi um varðveizlu byrgisins

Berlín. AP, Reuters, Daily Telegraph.

Á LÓÐ rétt sunnan við Brandenborgarhliðið, þar sem Berlínarmúrinn lá áður, hafa byggingaverkamenn komið niður á leifar af byrgi því sem Adolf Hitler og Eva Braun enduðu lífdaga sína í undir lok síðari heimsstyrjaldar.

Þrátt fyrir áskoranir um að varðveita byrgið og opna það almenningi sögðust talsmenn borgarstjórnarinnar í gær ekki sjá neina ástæðu til að varðveita "foringjabyrgið" þar sem Hitler framdi sjálfsvíg hinn 30. apríl 1945. Rauði herinn reyndi að eyðileggja það eftir stríðslok, en mokaði síðan yfir lítið skemmdar leifarnar, þar sem þær lágu síðan áratugum saman undir "dauðasvæðinu" svokallaða austan múrsins.

"Nákvæm staðsetning byrgisins hefur verið kunn í meira en áratug," hefur AP eftir Peter Strieder, yfirmanni skipulagsmála Berlínar. "Að þessar járnbindingar skuli koma í ljós," segir hann ekki gefa neitt tilefni til að endurskoða ákvörðun þá sem tekin var 1994 um að varðveita byrgið ekki.

Þykkir járnbitar, hluti járnbindingar þaks "foringjabyrgisins", komu í ljós þegar verkamenn voru að kanna hvort sprengjur úr heimsstyrjöldinni væri að finna í jarðveginum þar sem leggja á nýjan veg í gegn um miðborgina, en næst við hliðina er verið að vinna að byggingu nýrra húsakynna fyrir fulltrúa nokkurra þýzku sambandslandanna 16 í höfuðborginni.

"Þeir fóru 30 cm dýpra en til stóð og skröpuðu þak byrgisins," segir dr. Jörg Haspel, yfirmaður minjadeildar borgarstjórnarinnar, í The Daily Telegraph . "Við erum ekki með nein áform um að eyðileggja það. Svæðið verður kortlagt og síðan grafið yfir það á ný, og það lagt í hendur síðari kynslóða að ákveða hvort þær vilji gera eitthvað meira við þetta en við viljum."

Segir Haspel það forgangsmál að sínu mati að sjá til þess að sögulega mikilvægar minjar séu varðveittar, en að engin áform séu uppi um að opna byrgið almenningi og vegfarendur myndu ekki sjá nein ummerki um það. "Þetta má ekki verða að pílagrímastað fyrir nýnazista. Stóra hættan er sú að staðurinn hafi mest aðdráttarafl á það fólk sem við síður vildum sjá þar."

Fleiri byrgi fundin

Þessi nýjasti fundur stríðsminja í miðborg Berlínar kemur í kjölfar margra annarra. Árið 1990 fannst "bílstjórabyrgið" svokallaða, sem hýsti bílakost og bílstjóra nazistastjórnarinnar undir lok stríðsins. Það var mokað yfir það aftur. Og í fyrra fannst byrgi sem talið er að áróðursmálaráðherrann Joseph Goebbels hafi dvalizt í. Það liggur undir lóð sem ákveðið hefur verið að reisa gríðarstórt minnismerki um helförina á.

AP Byggingaverkamaður treystir girðingu umhverfis stað í Berlín þar sem fundist hafa leifar af byrginu sem Adolf Hitler og Eva Braun enduðu lífdaga sína í undir lok síðari heimsstyrjaldar.