"ÉG get ekki snúið myndunum við. Þetta er algjört leyndarmál," segir myndlistarmaðurinn Örn Ingi við blaðamann í upphafi samtals þeirra í Gerðarsafni, Listasafni Kópavogs, þar sem sýning á verkum Arnar hefst í dag klukkan 15. Örn Ingi segir að vinnustofa hans hafi verið harðlæst undanfarin þrjú ár og enginn hafi fengið að koma inn og sjá það sem hann hafi verið að vinna að.
FÉKK ÍTALSKT HÖFUÐHÖGG

"ÉG get ekki snúið myndunum við. Þetta er algjört leyndarmál," segir myndlistarmaðurinn Örn Ingi við blaðamann í upphafi samtals þeirra í Gerðarsafni, Listasafni Kópavogs, þar sem sýning á verkum Arnar hefst í dag klukkan 15. Örn Ingi segir að vinnustofa hans hafi verið harðlæst undanfarin þrjú ár og enginn hafi fengið að koma inn og sjá það sem hann hafi verið að vinna að. "Konan mín fékk ekki einu sinni að sjá verkin og eins og þú sérð vil ég ekki að neinn sjái þau fyrr en sýningin verður opnuð. Þetta er ný vinnuaðferð hjá mér og hún hefur orðið mér til góðs. Þetta byggist á sömu skynsemi og tilfinningu og þegar Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og tók síðan einn ákvörðun um kristnitökuna á Íslandi." Sýning Arnar Inga hefur það m.a. að leiðarljósi að túlka menningarlega fortíð og nútíð hinna ólíku landa Ítalíu og Íslands og í málverkum sínum staðsetur hann ítölsk verk í íslensku landslagi til að hugurinn leiti á þær slóðir, eins og listamaðurinn orðar það sjálfur. Sýningin er mjög umfangsmikil. Fjöldi málverka verður til sýnis auk ljósmynda, innsetninga, myndbandsverka og útskurðarverka og einnig verða nokkurs konar gjörningar framdir, svo eitthvað sé nefnt. Örn Ingi segir að hugmyndin að sýningunni hafi kviknað á Ítalíu þegar hann var þar á ferðalagi fyrir nokkrum árum. Þar uppgötvaði hann mikilvægi ítalskra sköpunarverka fyrri alda og hreifst af því hvernig ævagömul ítölsk mannvirki hafa staðist tímans tönn. Hann segir að Ítalía með sína fornu og heitu menningu, listir og mannlíf, hafi gefið heiminum staðfestingu um að góð verk lifa um árþúsundir. "Þegar ég fór til Ítalíu var eins og ég fengi lost eða öllu heldur þungt höfuðhögg. Sagan opnaðist fyrir mér og þessi ferð varð sannkallaður fjársjóður og algjörlega ógleymanleg. Í beinu framhaldi varð hugmyndin að sýningunni til. Ég gekk með hana í maganum í fjögur ár og hófst svo handa fyrir þremur árum. Konan mín sagði að sér þætti stórmerkilegt hvað ferðin hefði orðið mér notadrjúg." Gamla þvottavélin Gjörningar þeir sem minnst var á hér að framan felast m.a. í að Örn Ingi vill virkja gesti til þátttöku í sýningunni , m.a. með því að bjóða þeim að ræða við sig vítt og breitt um listir og menningarmál, auk þess sem hann ætlar að taka ljósmyndir af fólki og nota í sýninguna o.fl. "Ég verð hér í safninu á hverjum degi seinni sýningarvikuna. Fyrri vikuna nota ég hins vegar til að klippa og búa til kvikmynd sem ég ætla að taka hér á opnunardaginn, en myndina ætla ég að sýna og selja á sýningunni." Þátttaka almennings einskorðast þó ekki við samtöl við listamanninn heldur notar Örn gamla þvottavél í innsetningu sem kallar á þátttöku. "Þetta er gamla þvottavélin hennar mömmu sem ég hef gert upp og í hana getur fólk hent smápeningum og óskað sér. Ef það fær síðan ekki óskina uppfyllta innan 6 mánaða lofa ég endurgreiðslu!" Myndböndin sem Örn sýnir eru þjóðlífslýsingar. "Ég ætla t.d. að sýna myndir frá réttum og göngum í Svarfaðardal, svo er önnur mynd um mann sem lifir í ljóði." "Ég er" er fyrsta sýning Arnar Inga frá árinu 1992, en þá hélt hann sýningu í Hafnarborg og sló þá aðsóknarmet að eigin sögn. 4.000 gestir komu að sjá sýninguna. Örn hefur ekki sýnt í heimabæ sínum Akureyri í um tvo áratugi en segir að týndi sonurinn sé á leiðinni heim. "Ætli næsta sýning mín verði ekki á Akureyri." Örn Ingi hefur sett upp stóran pall fyrir framan stóra kringlótta gluggann í salnum og gefst leikfélögum, tónlistarfólki eða ljóðskáldum tækifæri til að kynna brot úr verkum sínum. Um er að ræða 10 mínútna kynningu eða svo.

Morgunblaðið/Þorkell Örn Ingi fann fjársjóð á Ítalíu.