ÞESSA dagana sitja prestar og prelátar á tali við guðdóminn og ráða ráðum sínum. Biskupar klæðast höklum og skrýðast skrúða. Kaleikum lyft og oblátur bráðna á tungu. (Haukur pressari kallaði obláturnar altaristöflur. Hann spurði mig er piltur nákominn mér var fermdur: Er strákurinn búinn að éta altaristöfluna? Mér varð hugsað til Rafaels og Michales Angelos.) Kirkjan ómar öll af lofsöngvum.
Einkavæðing kristindómsins

og hernaðarhyggja

ÞESSA dagana sitja prestar og prelátar á tali við guðdóminn og ráða ráðum sínum. Biskupar klæðast höklum og skrýðast skrúða. Kaleikum lyft og oblátur bráðna á tungu. (Haukur pressari kallaði obláturnar altaristöflur. Hann spurði mig er piltur nákominn mér var fermdur: Er strákurinn búinn að éta altaristöfluna? Mér varð hugsað til Rafaels og Michales Angelos.) Kirkjan ómar öll af lofsöngvum. Samtímis þessu falla myndskreyttir bæklingar inn um póstlúguna á heimilum kynslóðar sem var alin upp í erfðasynd, lifði manndómsár sín í (dýrtíð), óðaverðbólgu og stofnauka 13 og dansaði Boompsa-Daisy kringum gullkálfinn. Margur ellimóður rifjar upp orð skáldsins: "Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað. Hvar, ó hvar?" Hvað segir þjóðkirkjan? Hvernig skýrir hún þá stefnubreytingu sem orðið hefur í starfi kirkjunnar og lífi íslensku þjóðarinnar? Hvenær sneri þjóðkirkjan baki við friðarstefnu sinni? "Hin dýpsta speki boðar líf og frið," sagði Davíð Stefánsson í hátíðarljóði sínu. Þau orð skáldsins ómuðu í hamrasal í bergkastala frjálsrar þjóðar á Þingvöllum á alþingishátíð 1930. Forsætisráðherra var þá Tryggvi Þórhallsson. Hann var biskupssonur og var á sínum tíma biskupsritari. Sóknarprestur var hann um hríð, en hvarf að stjórnmálum. Hann var maður friðar og sátta. Sagði að "vopnaður friður væri undanfari styrjaldar". Það kom í hlut hans sem forsætisráðherra að gangast fyrir því að Ísland undirritaði Kelloggsáttmálann, sem svo var nefndur. Sáttmálinn var upphaflega tengdur nöfnum tveggja áhrifamikilla utanríkisráðherra, Aristide Briands, utanríkisráðherra Frakklands og Frank Kellogs utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Kellogg fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir frumkvæði sitt að gerð sáttmálans. Hann hefir hlotið það hlutskipti margra hugsjónamanna að gleymast. Alþingismaður sem sæti í utanríkismálanefnd hafði aldrei heyrt hann nefndan er ég spurði hann um ákvæði Kelloggsáttmálans, sem enn er í gildi. Þingmaðurinn hélt að ég ætti við Kelloggsmorgunverðarkornið (Kelloggs Cornflakes). Hann vissi ekki að Írakar (Tarek Asis), Bandaríkjamenn (Madelein Albright), Bretar (Tony Cook) og Halldór Ásgrímsson eru öll aðilar að margnefndum Kelloggsáttmála, sem biskupssonurinn Tryggvi Þórhallsson undirritaði í viðurvist og með samþykki Benedikts Sveinssonar (afa Björns menntamálaráðherra), Ólafs Thors og Ásgeirs Ásgeirssonar (síðar forseta) og lofaði fyrir hönd lands síns og utanríkismálanefndar að leita friðsamlegra leiða til lausnar á öllum deilumálum aðildarríkja. Ef fylgt hefði verið fyrirmælum í ákvæðum sáttmálans sem biskupssonurinn og formaður Framsóknarflokksins Tryggvi Þórhallsson undirritaði þá hefði enginn Flóabardagi orðið. Tarek Asis, Albright, Tony Cook og Halldór Ásgrímsson hefðu sameinast um að standa við skilyrði Kelloggsáttmálans. En því var ekki að heilsa. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins hafði snúið baki við friðarstefnu biskupssonarins, Tryggva Þórhallssonar. Tekið upp herskáa stefnu. Klæðst felubúningi Bandaríkjahers. Tekið þátt í heræfingum. Látið varpa sér niður í fallhlíf í þjóðgarðinn í Skaftafelli, fornhelgan reit, í flokki bandarískra hersveita, sem hafa neitað að staðfesta sáttmála um bann við jarðsprengjum, en það bann var eitt helsta áhugamál Díönu Bretaprinsessu. Hvort hernaðarhyggja utanríkisráðherra skýrist með því að Vopnafjörður er heimabær hans skal ósagt látið.

Utanríkisráðherra hefir reynst ákafur talsmaður hernaðaríhlutunar og loftárása. Hann hefir átt náin samskipti við tyrknesk stjórnvöld. Sömu stjórnvöld er halda dætrum Sophiu Hansen í gíslingu. Þangað eru sendar hjálparsveitir til aðstoðar. Foringi leiðangursmanna segist hafa "fókuserað" á að bjarga Tyrkjum úr húsarústum. Ekki minnst á íslenskar stúlkur, sem sitja í prísund harðneskju. Margt er breytt síðan Grettis var hefnt í Miklagarði og Þorsteinn Drómundsson leystur úr dyflissu þar.

Hilmar Stefánsson bankastjóri var formaður Skálholtsnefndar. Hann varaði eindregið við þeirri hugmynd að Íslendingar segðu Þjóðverjum stríð á hendur árið 1945. Hvað hefir Þjóðkirkjan gert til þess að vara við hernaðarhyggju sem lýsir sér í fögnuði er birtist í ummælum um loftárásir á Júgóslavíu? "Sivjarspellum" sem unnin voru er sprengjur féllu á óbreytta borgara. Þess má minnast að ungur Frakki leitaði athvarfs er hann vildi komast hjá því að bera vopn og æfa vígaferli. Þáverandi biskup kom sér hjá því að hann fengi griðland hér. Engin hefði fallið í valin í Kosovo ef æskumenn allra fjandsamlegra fylkinga hefðu farið að dæmi Gervasonis og neitað vopnaburði. Með brottvísun Gervasonis hófst hernaðarhyggja Íslendinga. Þjóðkirkjan mylur misgjörð sína undir purpurakápu stríðsherra og hernaðarsinna.

Í tíð núverandi biskups hefir Ríkisútvarpið fellt niður vikulegan þátt, sem helgaður var kirkjunni og kristindómi, Helgistund. Jafnframt hætt flutningi á Daglegu máli og horfið frá stefnu Hallgríms Péturssonar: "gefðu að móðurmálið mitt". Þegar Ríkissjónvarpið sjónvapaði frá biskupsvígslu í Hallgrímskirkju og organtónar dvínuðu tók strax við skrípaþátturinn Kalli kúla. Svo smekklegt var það.

Í tilefni af afmæli Dómkirkjunnar í Reykjavík var efnt til átaks í safnaðarstarfi og gefið úr myndskreytt almanak. Þá birtist Mammonsdýrkun samtímans í algleymingi. Athafnamenn og auðjöfrar keyptu sér sinn mánuðinn hver af kirkjuárinu. Loðfeldasali kenndur við Pelsinn keypti einn mánuð. Hann reyndist bænheitur. Það var eins og við manninn mælt. Háskóli Íslands seldi feldskeranum Reykjavíkurapótek og batt með því endahnút á aldagamalli sögu, en sneri sér þess í stað að því að enskuvæða talhólf sín og greiða hærri laun þeim sem kenndu á ensku, en á móðurmáli... Dómkirkjusöfnuðinum var mikið í mun að kynna safnaðarsystrum að þær ættu þess kost að sveipa sig loðfeldum í næðingum vetrarins, þegar "fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel".

Þess var getið að myndskreyttum áróðursbæklingi væri dreift á vegum trúfélaga. Bæklingur þessi er prentaður í Finnlandi og ber merki auðhyggju og mammonsdýrkunar. Plús og mínus, litla taflan, er inntak boðskaparins um ávinning af kristindómi. Textinn er morandi í málvillum. Bavaria Bildagentur er stofnun sem tilgreind er. Bæjaraland er heiti ríkisins. Sumt af texta ritsins leiðir hugann að því höfundar hafi samið hann á hestbaki en ekki í hugleiðingu um akursins liljugrös. Íslenska þjóðkirkjan á ekki að ríða álút í söðli hernaðarhyggjunnar.

Pétur Pétursson þulur. Pétur Pétursson