BACHIORU Salou ­ 28 ára leikmaður frá Tógó, er farinn að brosa á ný. Þessi frábæri sóknarmaður, sem kom frá Dortmund til Frankfurt, er kominn á skotskóna á ný og er markahæstur í Þýskalandi ­ hefur skorað fimm mörk. Jörg Berger, þjálfari Frankfurt, virðist hafa veðjað á réttan hest þegar hann keypti Salou, sem sat mestallt sl.


KNATTSPYRNA

Rafmagnaður leikmaður hjá Frankfurt

BACHIORU Salou ­ 28 ára leikmaður frá Tógó, er farinn að brosa á ný. Þessi frábæri sóknarmaður, sem kom frá Dortmund til Frankfurt, er kominn á skotskóna á ný og er markahæstur í Þýskalandi ­ hefur skorað fimm mörk. Jörg Berger, þjálfari Frankfurt, virðist hafa veðjað á réttan hest þegar hann keypti Salou, sem sat mestallt sl. keppnistímabilið á bekknum hjá Dortmund ­ og þá virtist sem honum væri fyrirmunað að skora mörk, sem átti að vera hlutverk hans hjá Dortmund.

Udo Lattek, þjálfarinn gamalkunni, segir Salou hinn fullkomna sóknarmann ­ með allt sem þarf. "Hann er hávaxinn [1,90], frábær skallamaður, gífurlega fljótur og býr yfir mikilli tækni," segir Lattek. Rolf Heller, forseti Frankfurt, segir að hann hafi verið sinn óskaleikmaður, en ekki verið ókeypis [280 millj. ísl. kr.], "og við urðum að hugsa okkur vel um, en við gerðum rétt er við keyptum hann". Þegar Salou er spurður um síðasta tímabil, segist hann hafa verið mjög sár út í þjálfara Dortmund ­ hann hafi sakað sig um að hafa lélegt úthald og geta ekki leikið níutíu mínútur skammlaust. "Ég gat ekki varið mig því um leið og þú segir eitthvað hjá Dortmund kostar það minnst 400.000 krónur." Salou sat því orðalaust á bekknum leik eftir leik. Hann ræddi ekki við Skibbe og þjálfarinn talaði heldur ekki við hann. "Þeir áttu einfaldlega ekki saman," segir Peter Telek, umboðsmaður Salou.

Sergej Barbarez, miðjumaður hjá Dortmund, og vinur Salou, segir að hann sé mjög viðkvæmur og þurfi mikinn stuðning frá umhverfinu til að njóta sín. "Hann verður að hafa á tilfinningunni að not séu fyrir hann ­ þá er hann líka gulls ígildi, eins og hann sýnir nú hjá Frankfurt," segir Barbarez. Friedhelm Funkel, fyrrverandi þjálfari Salou hjá Duisburg, sem varð að selja hann síðasta ár til Dortmund vegna peningavandræða, segir að Salou sé afar tryggur leikmaður sem aldrei svíkst um. "Hann féll einfaldlega ekki inn í myndina hjá eiginhagsmunapoturunum hjá Dortmund. Ég var því afar ánægður fyrir hans hönd þegar ég frétti að Frankfurt treysti sér til að kaupa hann."

Lærður rafvirki

"Ég var hreinlega orðinn veikur að vera hjá Dortmund ­ sagði við konu mína þegar tilboðið kom frá Frankfurt: "Ég er viss um að þar fæ ég þá virðingu og það traust sem ég þarf á að halda,"" segir Salou.

Hann hefur svo sannarlega þakkað traustið og er nú uppáhald áhangenda Frankfurt. Hjá Dortmund féll hann ekki inn í leikkerfi liðsins, en hjá Frankfurt nýtur hann þess að vera með Norðmanninum Jan-Age Fjörtoff, sem hefur matað hann með fallegum sendingum. Það er eitthvað sem Salou kann að meta. Salou, sem er lærður rafvirki, er rafmagnaður leikmaður. Hann fær góðar tekjur hjá Frankfurt, um 120 milljónir ísl. kr. á ári og ljóst var að Frankfurt tók mikla áhættu þegar liðið fjárfesti í leikmanninum. Hann gerði þriggja ára samning og nú er þegar rætt um að framlengja samninginn.

Salou hefur búið í Þýskalandi í tíu ár og segist þessi svarta perla aldrei hafa orðið fyrir útlendingahatri. Hann á son, Muhammed, sem er 10 ára og Yshamin dóttir hans er 7 ára ­ fædd í Þýskalandi. Muhammed er sagður mjög efnilegur og leikur í unglingaliði Frankfurt með númerið 11 á bakinu, alveg eins og pabbinn. Salou gefur alltaf viðtöl á móðurmáli sínu. "Þegar ég var hjá Mönchengladbach fór ég í þýskunám í sex mánuði. Ég skil allt ­ verð þó að játa að sonur minn talar tíu sinnum betri þýsku en ég. Það fer oft verulega í taugarnar á mér," sagði Salou.

Reuters Bachirou Salou, sóknarleikmaður Frankfurt, sem hefur leikið 37 landsleiki fyrir Tógó, á hér í höggi við Sammy Kuffour hjá Bayern, sem stekkur hærra. Salou hóf að leika með Mönchengladbach í Þýskalandi, þaðan hélt hann til Duisburg, síðan til Dortmund áður en hann fór til Frankfurt. Hann hefur leikið 180 leiki í 1. deildarkeppninni ­ skorað 41 mark.