"ÉG átti von á að þeir kæmu til með að gera mér einhvern grikk og var við öllu búinn. Þeir létu til skarar skríða á æfingu á miðvikudag, kölluðu á mig er ég var við æfingar úti á velli og ég sá þá að fötin mín voru í ljósum logum fyrir utan búningsklefa liðsins.

Brenndu

föt

Hermanns "ÉG átti von á að þeir kæmu til með að gera mér einhvern grikk og var við öllu búinn. Þeir létu til skarar skríða á æfingu á miðvikudag, kölluðu á mig er ég var við æfingar úti á velli og ég sá þá að fötin mín voru í ljósum logum fyrir utan búningsklefa liðsins. Þá höfðu þeir hent skónum mínum í klósettið og migið yfir þá," sagði Hermann Hreiðarsson, sem nýgenginn er til liðs við enska úrvalsdeildarlið Wimbledon og var vígður í félagið af brjálaða genginu eða "The Crazy Gang".

Hermann, sem segir að vígslur brjálaða gengisins geti orðið svæsnar, segist hafa mætt í íþróttafötum og -skóm og því hafi skaðinn ekki orðið eins mikill eins og ef hann hefði mætt í dýrari flíkum. "Ég átti von á einhverjum látum enda búinn að heyra sögur af þessum vígslum en mér fannst ég komast vel frá þessu. Ég hafði gaman af þessu tiltæki en vonandi luma þeir ekki á fleiri uppákomum. Þetta eru léttgeggjaðir gaurar í liðinu og stemmningin er ekki ólík því og var í Vestmannaeyjum," sagði Hermann sem segir að hann hafi að öðru leyti fengið góðar móttökur í félaginu og kveðst hlakka til fyrsta leiks, sem er gegn Bradford í dag. "Það er alveg meiriháttar að komast í hópinn," segir hann og kveðst gera sér vonir um að hefja leik. "Sjálfsagt verða einhver viðbrigði að leika á ný í úrvalsdeild eftir dvölina í neðri deildum hjá Brentford en ég lék 30 leiki með Crystal Palace í deildinni veturinn 1997­98."

Búist er við því að Hermann verði í leikmannahópi Wimbledon sem mætir Bradford, að því er kemur fram á spjallsíðu félagsins á Netinu. Segir að Egil Olsen, knattspyrnustjóri liðsins, hafi hrifist af frammistöðu Hermanns á æfingum í þessari viku en að leikmaðurinn þurfi lengri tíma til þess að sanna sig með liðinu. "Mér finnst hann hafa staðið sig ágætlega, en ég tel að hann þurfi lengri tíma, ekki síst til þess að kynnast félögum sínum í liðinu," segir Olsen, sem telur að hann hafi gert góð kaup í Hermanni.