ALÞJÓÐLEGU samtökin Læknar án landamæra, sem hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár, eru talin vel að verðlaununum komin. Þau hafa unnið mikilsvert mannúðarstarf víða um heim, og vörðuðu í raun veginn fyrir starfsemi sjálfstæðra hjálparstofnana.
Læknar án landamæra taldir vel að friðarverðlaunum Nóbels komnir

Vörðuðu veginn fyrir sjálfstæðar hjálparstofnanir

Brussel, Ósló, París. AFP, AP, Reuters.

ALÞJÓÐLEGU samtökin Læknar án landamæra, sem hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár, eru talin vel að verðlaununum komin. Þau hafa unnið mikilsvert mannúðarstarf víða um heim, og vörðuðu í raun veginn fyrir starfsemi sjálfstæðra hjálparstofnana.

Tíu franskir læknar, sem unnu við hjálparstörf í Biafra-stríðinu, stofnuðu samtökin í París árið 1971. Töldu þeir afmarkað starfssvið alþjóðlegra stofnana á borð við Rauða krossinn standa hjálparstarfi og mannréttindabaráttu fyrir þrifum. Síðan hefur starfsemin vaxið og dafnað. Læknar án landamæra eru nú alþjóðleg samtök, sem starfrækja 23 skrifstofur um allan heim. Fara yfir 2 þúsund sjálfboðaliðar á þeirra vegum til um 80 landa á hverju ári.

Læknar án landamæra unnu til að mynda mikið og gott starf við aðhlynningu fórnarlamba mestu átaka þessa árs, í Kosovo og á Austur-Tímor. Læknarnir voru þar meðal síðustu manna sem yfirgáfu þurfandi íbúa áður en bardagar skullu á, og þeir fyrstu til að snúa aftur eftir að kyrrt var orðið.

"Hippalæknar" áunnu sér virðingu og traust

Læknar án landamæra skilgreina sig sem "sjálfstæð, alþjóðleg mannúðarsamtök, án hagnaðarsjónarmiða, sem hafa það að markmiði að veita hrjáðu fólki læknisaðstoð".

Í Biafra-stríðinu gramdist frönsku læknunum að sem starfsmenn Rauða krossins gátu þeir ekki gagnrýnt fjöldamorð Nígeríuhers á aðskilnaðarsinnum, sem þeir töldu þjóðarmorð. Í fyrstu var litið á samtökin sem eins konar "hippalækna", en með tímanum áunnu þau sér virðingu og traust.

Starfsemin óx mjög er leið á 8. áratuginn, þegar borgarastríð geisuðu víða í þróunarríkjum og mikil þörf var á læknishjálp og mannúðaraðstoð. Læknar án landamæra létu þá meðal annars að sér kveða í Líbanon, Zaír, Djíbútí, Alsír og Erítreu. Í Víetnam-stríðinu höfðu samtökin bækistöðvar í Taílandi og hlúðu þar að flóttamönnum frá Víetnam, Kambódíu og Laos. Læknarnir hafa síðan unnið við hjálparstörf á öllum helstu átakasvæðum heimsins.

Afskipti koma í veg fyrir fjöldamorð

Meðal stofnenda Lækna án landamæra var Bernard Kouchner, núverandi yfirmaður starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Kosovo. Hann átti mikinn þátt í því að vinna þeirri hugmynd brautargengi að sjálfstæðar, alþjóðlegar hjálparstofnanir ættu að grípa inn í atburðarásina til að hlúa að fórnarlömbum, hvar sem þau væri að finna. Kouchner sagði sig reyndar úr Læknum án landamæra eftir ágreining við samstarfsmenn sína í tengslum við Víetnam-stríðið, og stofnaði í kjölfarið samtökin Læknar heimsins.

Kouchner telur að "mannúðleg afskipti" slíkra samtaka ættu að geta komið í veg fyrir fjöldamorð. "Það mun verða ómögulegt að endurtaka Kambódíu, Auschwitz og Rúanda á næstu öld," sagði Kouchner eftir að niðurstaða dómnefndarinnar lá fyrir í gær.

AP

James Orbinsky, forseti alþjóðanefndar Lækna án landamæra, fagnar viðurkenningunni á fréttamannafundi í höfuðstöðvum samtakanna í París í gær.