LOGI Ólafsson var í gær ráðinn þjálfari 1. deildar liðs FH í knattspyrnu næstu tvö árin. Tekur hann við af Magnúsi Pálssyni sem verið hefur þjálfari liðsins undanfarin ár. Logi segir markmið sitt vera skýrt; að komast í efstu deild að lokinni næstu leiktíð og koma FH á ný í hóp fremstu liða í efstu deild.


KNATTSPYRNA

Logi er

kominn

heim LOGI Ólafsson var í gær ráðinn þjálfari 1. deildar liðs FH í knattspyrnu næstu tvö árin. Tekur hann við af Magnúsi Pálssyni sem verið hefur þjálfari liðsins undanfarin ár. Logi segir markmið sitt vera skýrt; að komast í efstu deild að lokinni næstu leiktíð og koma FH á ný í hóp fremstu liða í efstu deild. "Það hefur vantað herslumuninn undanfarin ár á að komast upp, en nú er kominn tími til að breyting verði á," sagði Viðar Halldórsson, stjórnarmaður knattspyrnudeildar FH, er samningurinn við Loga var undirritaður í Kaplakrika í gær þegar rétt 70 ár voru liðin frá stofnun félagsins.

Með ráðningu Loga má segja að hann sé að vissu leyti kominn heim á nýjan leik, en Logi var leikmaður knattspyrnuliðs FH frá 1972 til 1981 og síðar aðstoðarþjálfari Inga Björns Albertssonar keppnistímabilið 1985. Síðan hefur Logi víða þjálfað bæði karla- og kvennalið, verið landsliðsþjálfari A-landsliða beggja kynja en frá 1997 og þar til á dögunum þjálfaði hann ÍA.

"Þegar forráðamenn FH höfðu samband við mig út af þessu starfi þá rann mér blóðið til skyldunnar," sagði Logi í gær. "Ég er og hef verið FH-ingur og lengi haft augastað á þjálfun liðsins þótt ekki hafi ég tekið það að mér fyrr en nú. Markmið okkar er skýrt, að fara upp í efstu deild á næsta ári, en það er alveg ljóst að það gerist ekki af sjálfu sér. Fyrir því þarf að hafa."

Logi sagði að gott starf hefði verið unnið hjá FH mörg undanfarin ár með þeim árangri að félagið ætti efnilegan hóp yngri knattspyrnumanna sem hlúa þyrfti að. Auk þess þyrfti að hugsa vel um þann hóp sem fyrir væri í meistaraflokki, en það kæmi hins vegar ekki í veg fyrir að styrkja þyrfti liðið enn frekar fyrir átökin. Ekkert væri hins vegar ljóst hvaða leikmenn kæmu. "Við verðum bara að sjá til hvar skórinn kreppir og haga okkar vinnu í samræmi við það."

Hlutafélag hjá FH

Stofnað hefur verið sérstakt rekstrarfélag sem sjá mun um rekstur meistaraflokks og 2. flokks karla í knattspyrnu hjá FH. "Rekstrarfélaginu til stuðnings er ætlunin að stofna á næstunni hlutafélag," sagði Viðar Halldórsson í gær. Má reikna með að það verði á svipuðum forsendum og hlutafélag KR-inga.