Kristín Sturludóttir Við höfum kvatt ástkæra vinkonu okkar, Kristínu Sturludóttur. Hún kom í fjölskylduna þegar hún giftist bróður mínum og mági, Gunnari Svanberg. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, sem öll hafa lokið langskólanámi og eiga nú orðið þrjú barnabörn. Við höfum alla tíð haft mikið samband við þau, enda höfum við búið í sama húsi síðastliðin 27 ár.

Kristín hafði mikið yndi af blómum og garðrækt og sáði sjálf fyrir öllum sumarblómum, ennfremur var hún mikil sauma- og hannyrðakona, féll aldrei verk úr hendi. Þrátt fyrir það gaf hún sér tíma til að syngja árum saman í Dómkórnum og síðar í Laugarneskirkjukór, enda var hún mikið fyrir tónlist, eins og allt hennar fólk. Henni var mjög umhugað um börnin sín og um alla fjölskylduna, sem hún tók miklu ástfóstri við.

Við vottum Gunnari og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð vegna fráfalls hennar.

Svanhildur og Bolli.