Sigurður Karlsson Elsku Siggi minn. Ég bara get ekki trúað því að þú sért dáinn. Ég var oft hrædd um þig þegar þú varst úti á sjó í vondum veðrum, eitthvað sem allar sjómannskonur kannast við. Mér kom samt aldrei til hugar að þú sem alltaf varst hress og hraustur myndir falla niður við störf þín og deyja fyrirvaralaust. Við giftum okkur síðasta sjómannadag og hver hefði trúað því að við myndum ekki fá lengri tíma, við sem ætluðum að verða gömul saman. Það verður erfitt að venjast því að síminn hringi ekki lengur um nótt eins og gerðist svo oft þegar þú varst að klára vakt og að sætta sig við það að ég geti ekki farið og tekið á móti Sigga mínum á bryggjunni þegar Gnúpurinn kemur í land eftir langan túr. En þessi sjö ár sem við höfum átt verða aldrei frá okkur tekin og minningin mun lifa. Skipsfélagar þínir eiga alla mína samúð og þá sérstaklega Fiddi mágur. Á frystitogara lifa menn í litlu samfélagi vikum saman á sjónum og þegar einn úr hópnum deyr í höndunum á þeim og ekkert er hægt að gera honum til bjargar, þá tekur mikið á, jafnvel fyrir hörðustu togarajaxla.

Ég fann þessi orð í bók sem ég gaf þér fyrir nokkrum árum og þau segja allt um mínar tilfinningar:

"Ég finn alltaf til nærveru þinnar í húsinu. Jafnvel þegar þú ert fjarverandi fer ég að hlusta eftir þér. Ég opna allar dyr og á hálfvegis von á að finna þig þar ­ sný mér við til að ávarpa þig, og þögnin veldur mér hræðilegum vonbrigðum. Þú ert í huga mínum og hjarta. Þú ert í hverjum andardrætti mínum. Þú ert hluti af mér. Að eilífu."

(Rosanne Ambrose-Brown.) Hvíl í friði, ástin mín.

Þín

Lára.