Sigurður Karlsson Það er sunnudagsmorgunn, laufin falla og fjúka um í golunni. Áhyggjur og hversdagsstreita eru víðsfjarri. En eins og hendi sé veifað fær þessi haustmorgunn annan og myrkari blæ. Okkur berast þær fregnir að Siggi hafi þá um morguninn orðið bráðkvaddur við störf sín um borð í togaranum Gnúpi GK 11.

Upp í hugann koma myndir af kynnum okkar af Sigga. Eins og allar raunverulegar myndir eru þær hvorki hvítar né svartar, heldur í ýmsum blæbrigðum og tónum. Lára kynnir okkur fyrir Sigga. Hann virkar á okkur eins og dæmigerður sjómaður, harður af sér og svolítið hrjúfur eins og hann brynji sig gegn óblíðri náttúru og erfiði sjómannsstarfsins.

Fleiri myndir. Lítil frænka tekur ástfóstri við Sigga og kallar hann afa. Hann gengur um íbúðina í uppáhaldssloppnum sínum og hún fylgir á eftir. Hamingjan í augum Láru og Sigga þegar þau giftu sig síðastliðið sumar. Basl með hringa og kossinn sem ætlaði aldrei að taka enda. Siggi að segja frá því þegar hann komst í návígi við "Jaggerinn" á tónleikum í London í sumar.

Sorginni fylgir vanmáttur og efi. Siggi er fallinn frá í blóma lífins og við finnum til smæðar okkar og efumst um tilganginn. Ef eitthvað huggar þá eru það góðar minningar. Við erum þakklát Sigga fyrir að hafa verið lífsförunautur Láru. Ferð þeirra saman varð skemmri en efni stóðu til. Oft dans á rósum en ekki alltaf. Erfiðleikar verða ekki umflúnir en það sem skipti Láru mestu máli var að við hlið hennar stóð maður sem reyndist best þegar mest lá við. Við erum líka þakklát fyrir hversu vel Siggi reyndist Andra stjúpsyni sínum sem var á viðkvæmum aldri þegar Siggi flutti inn á heimilið. Við munum hjálpsemina og góðu stundirnar.

Tengdamamma, Sigurður og Drífa, Dagný og Friðrik (Fiddi) og fjölskyldur.