JÓHANN ÞORVALDSSON

Jóhann Þorvaldsson fæddist á Tungufelli í Svarfaðardal 16. maí 1909. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 9. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurðardóttir og Þorvaldur Jón Baldvinsson bóndi. Systkini Jóhanns voru átta: Þóra Sigurrós, Baldvin Gunnlaugur, Guðlaug Ingibjörg, Sigurður, Kristín Guðrún, Hartmann, Rósa og Elíngunn. Þau eru öll látin. Jóhann kvæntist 17. desember 1938 Friðþóru Stefánsdóttur kennara og lifir hún mann sinn. Börn þeirra eru 1) Sigríður, maki Henning Finnbogason. Þau eiga tvo syni. 2) Þorvaldur, maki Dóra Sæmundsdóttir, d. 28. maí 1998. Þau eiga sex börn. 3) Stefánía. Hún á fimm dætur. 4) Indriði, maki Kristjana Björk Leifsdóttir. Þau eiga fjögur börn. 5) Freysteinn, maki Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir. Þau eiga fjögur börn. Jóhann lauk kennaraprófi árið 1932 og var kennari í einn vetur í Ólafsvík og á Suðureyri við Súgandafjörð næstu fimm. Hann var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar frá árinu 1938 til ársins 1973 og skólastjóri frá 1973­1979. Hann var skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá 1945­ 1973. Jóhann var forstöðumaður Gesta- og sjómannaheimilis Siglufjarðar sem stúkan Framsókn rak á árunum 1941­1960. Hann var ritstjóri Regins, blaðs templara, um árabil. Jóhann starfaði mikið í góðtemplarareglunni og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Hann var gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrós nr. 68 og æðstitemplar stúkunnar Framsókn nr. 187. Jóhann starfaði lengi að skógrækt í Siglufirði og var formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar til ársins 1987. Hann var heiðursfélagi Skógræktarfélags Siglufjarðar og Skógræktarfélags Íslands og hann var sæmdur Fálkaorðunni fyrir störf að kennslu og skógrækt. Hann tók einnig virkan þátt í öðrum félagsmálum og stjórnmálum í Siglufirði, sat í bæjarstjórn, var formaður stjórnar Kaupfélags Siglfirðinga í mörg ár og var m.a. ritstjóri Einherja, blaðs framsóknarmanna í Siglufirði, í fjórtán ár. Jóhann var einn af stofnendum Félags eldri borgara í Siglufirði og var fyrsti formaður þess. Útför Jóhanns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.