Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson
Það er grundvallaratriði, segir Gunnar Örn Gunnarsson, að þeirri kenningu er alfarið hafnað að starfsemi Kísiliðjunnar eigi eitthvað skylt við þær sveiflur sem verða í lífríki Mývatns.

NÝLEGA var lögð fram skýrsla þriggja erlendra prófessora í vatnalíffræði um mat á áhrifum af starfsemi Kísiliðjunnar á lífríki Mývatns.

Í skýrslunni svara þeir nokkrum spurningum sem ríkisstjórn Íslands lagði fyrir þá. Reynt hefur verið að gera skýrsluna tortryggilega þar sem undirritaður átti þátt í að fengnir voru óháðir vísindamenn til að fara yfir fyrirliggjandi rannsóknir á lífríki Mývatns.

Þegar ég hóf störf við Kísiliðjuna í upphafi síðasta árs varð mér fljótt ljóst að umræður um lífríki Mývatns og áhrif Kísiliðjunnar þar á voru sigldar í strand í vísindasamfélaginu. Þeir vísindamenn sem mest hafa komið að rannsóknum hafa verið á móti starfsemi Kísiliðjunnar í áratugi og einsýnt að ekki væri mögulegt að efna til málefnalegrar umræðu við þá. Því væri nauðsynlegt að óháðir aðilar kæmu að málinu.

Ljóst er að skýrsla hinna erlendu vísindamanna er mjög vel úr garði gerð. Við lestur skýrslunnar verður að hafa í huga að hver þeirra um sig hefur áratuga langa reynslu af rannsóknum í vötnum. Það sem fram kemur í skýrslunni er ekki einungis byggt á fyrirliggjandi gögnum, heldur einnig á reynslu þeirra og þekkingu. Það er jafnframt ljóst að þessir menn hafa allar varúðarreglur í heiðri, enda ekki þeirra að bera ábyrgð á að veita Kísiliðjunni nýtt námaleyfi. Skýrslan er jafnframt afar kurteislega fram sett og ekki ætlað að kasta rýrð á störf íslenskra vísindamanna. Þeir taka skýrt fram að það er ekki í verkahring þeirra að leggja mat á umhverfispólitíska þætti, eins og hvort iðnaðarstarfsemi eins og sú sem Kísiliðjan stundar eigi að vera við Mývatn.

Mismunandi túlkun

Afar mismunandi túlkun hefur komið fram á skýrslunni í fjölmiðlum að undanförnu, svo mismunandi að margir hafa furðað sig á hvernig það er hægt. Ég hef lýst því yfir að skýrslan sé Kísiliðjunni afar hagstæð og styðji við margt það sem haldið hefur verið fram af forsvarsmönnum fyrirtækisins.

Gísli Már Gíslason, stjórnarform. Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, og Árni Einarsson starfsmaður stöðvarinnar hafa haldið fram öðrum sjónarmiðum. Það er nú svo að ef vilji er fyrir hendi og hlutir teknir úr samhengi, er iðulega hægt að snúa máli sér í hag. Tökum dæmi: Árni Einarsson heldur því fram í blaðagrein að "Norrænu vatnalíffræðingarnir telji það grundvallaratriði að ekki eigi að stunda iðnrekstur sem hefur þetta bein áhrif á umhverfið á svo viðkvæmu búsvæði sem Mývatn er." Hér er það rangtúlkað sem í skýrslunni stendur. Það er umhugsunarefni þegar embættismaður undirstofnunar umhverfisráðuneytis leyfir sér að túlka skýrsluna á þennan hátt. Í þeim kafla skýrslunnar sem Árni vitnar þarna til eru vísindamennirnir að ræða almennt um verndarsjónarmið sem alls staðar eru uppi, þ.e. hvort iðnaðarstarfsemi eigi að vera á stöðum eins og við Mývatn eða ekki. Þeir taka síðan skýrt fram að það sé ekki í þeirra verkahring að taka afstöðu í því máli. Ákvörðunin hlýtur að verða okkar Íslendinga.

Að undanförnu hefur Gísli Már Gíslason haldið því fram að "sveiflur hafa aldrei skipt máli varðandi Kísiliðjuna, ekki öðruvísi en þannig að gera okkur erfiðara fyrir að sjá hvaða áhrif Kísiliðjan hefur á vatnið". Mörgum Mývetningum hefur komið þessi yfirlýsing Gísla Más verulega á óvart svo ekki sé meira sagt. Lítum nánar á þessi ummæli. Ef litið er til baka og velt upp hvað það er sem veldur mönnum mestum áhyggjum við Mývatn og veldur jafnframt mestri andstöðu við starfsemi Kísiliðjunnar er það eftirfarandi: Að silungsveiði bregðist, að fugladauði verði óvenju mikill, að lítið sé um mý. Hver man ekki eftir myndum úr sjónvarpi, eða fréttum í blöðum, þar sem sýndir eru dauðir andarungar, eða sagt frá dapurri silungsveiði? Í kjölfarið er síðan bent á Kísiliðjuna sem sökudólg. Er hér um nokkuð annað að ræða en sveiflur í lífríkinu?

Talsmenn Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn hafa haldið því fram að sveiflur í lífríkinu hafi að öllum líkundum aukist frá 1970, eða skömmu eftir að Kísiliðjan hóf störf. Sömu menn segja einnig að orsakir sveiflnanna séu ókunnar en "aðeins tveir möguleikar hafi verið nefndir í hópi fræðimanna: Kísilgúrvinnsla á vatnsbotninum og hugsanleg óþekkt breyting eða atburðarás í veðurfari." Það er athygli vert að hvorug þessara kenninga er tekin upp af hinum erlendu vísindamönnum. Þá er það ein af megin niðurstöðum í skýrslu þremenninganna að þeirri kenningu er alfarið hafnað að starfsemi Kísiliðj
unnar eigi eitthvað skylt við þær sveiflur sem verða í lífríki Mývatns. Í þessu sambandi er fróðlegt að benda á að í grein Árna Einarssonar í Mbl. 11. jan. nefnir hann ekki einu orði að hinir erlendu vísindamenn hafi komist að þessari niðurstöðu.

Það er nauðsynlegt að fram komi að fulltrúar Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn áttu fund með hinum erlendu vísindamönnum. Því skýtur skökku við að Árni Einarsson tíundi í niðurlagi greinar sinnar í Mbl. 11. jan. sl. ýmis atriði sem hann telur að vísindamennirnir erlendu hafi þurft að fá betri vitneskju um. Árni gat veitt þeim allar upplýsingar sem hann kærði sig um.

Áhrif námuvinnslunnar

Í skýrslunni kemur fram að vissulega hafi námuvinnsla áhrif á lífríki Mývatns. Engum hefur enda hugkvæmst að svo sé ekki og þarf ekki sérfræðinga til.

Hinir erlendu sérfræðingar leggja til að einungis vegna varúðarsjónarmiða verði námuvinnslu hætt í Ytriflóa. Þessi tillaga er sjálfsögð enda í samræmi við hugmyndir forsvarsmanna Kísiliðjunnar. Nú þegar hefur verið dælt af um 40% af flatarmáli flóans (7% af heildarflatarmáli vatnsins) og þess vegna eðlilegt vegna varúðarsjónarmiða að stinga við fótum.

Vert er í þessu sambandi að benda á að í skýrslunni kemur ekkert fram sem bendir til að lífríkið hafi skaðast af vinnslu kísilgúrs. T.d. er fuglalíf í miklum blóma alls staðar á Mývatni, ekki síst á Ytriflóa. Jafnframt kemur fram að námuvinnslan hafi lengt líftíma Ytriflóa sem vatns. Þess er skammt að minnast að bátum var vart fært um Ytriflóa.

Á umliðnum árum hafa nokkur atriði verið nefnd um áhrif námavinnslu á lífríki Mývatns.

Þverrandi veiði silungs. Hrun flórgoðastofnsins. Setflutninga milli Ytri- og Syðriflóa. Hver er staðan í dag? Hinir erlendu vísindamenn benda á að veiðigögn bænda er ekki hægt að nota til að segja til um stærð og þéttleika fiskistofna í vatninu. Stofn flórgoða hefur vaxið verulega á síðustu árum, hefur þrefaldast 1998 miðað við árið 1975 og einkum á Ytriflóa. Setflutningar milli flóanna eru engir og námuvinnsla hefur engu breytt þar um. Rökum gegn starfsemi Kísiliðjunnar fer stöðugt fækkandi.

Nýtt námaleyfi

Í frummati á umhverfisáhrifum á kísilgúrvinnslu úr Mývatni sótti Kísiliðjan einkum um aukin námasvæði á svonefndum svæðum 1 og 2 á norðanverðum Bolum í Syðriflóa. Svæðin taka til um 4% af heildarflatarmáli Syðriflóa. Þessi svæði eru einmitt þau sem hinir erlendu vísindamenn telja óhætt að vera með námuvinnslu á. Þeir leggja ekki til að svæðin verði að fullu nýtt enda verður að skoða þeirra ráðgjöf í því ljósi að ekki sé verið að taka neina áhættu. Þetta er einmitt ein af megin niðurstöðum skýrslunnar. Hinir erlendu vísindamenn telja lífríki Mývatns ekki stefnt í hættu þó kísilgúr verði unninn í Syðriflóa. Vissulega er slík niðurstaða ögrun fyrir ýmsa sem barist hafa í áratugi fyrir lokun Kísiliðjunnar. Fyrir okkur hina er niðurstaðan ögrun til að nýta þær auðlindir sem við eigum samfélaginu til framdráttar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar.