ÞJÓÐIN fylgdist spennt með því þegar Haraldur Örn Ólafsson náði fyrstur Íslendinga þeim merka áfanga 10. maí síðastliðinn að ganga á norðurpólinn.

ÞJÓÐIN fylgdist spennt með því þegar Haraldur Örn Ólafsson náði fyrstur Íslendinga þeim merka áfanga 10. maí síðastliðinn að ganga á norðurpólinn. Þessi mikli ævintýramaður hefur nú sigrað báða pólana sem er einkar fágætt en þar með er ei öll sagan sögð því síðan 1978 hafa einungis fimm manns náð einir síns liðs á norðurpólinn, með eða án stuðnings. Haraldur er aldrei þessu vant í byggð um þessar mundir og hvílir lúin bein.

Hvernig hefur þú það í dag?

Ég hef sjaldan haft það betra enda er ég að njóta lífsins eftir langan leiðangur.

Hvað ertu með í vösunum í augnablikinu?

Ekki neitt.

Ef þú værir ekki lögmaður hvað vildirðu þá helst vera?

Ég er mjög sáttur við lífið eins og það er og langar í raun ekki að vera neitt annað en ég er.

Hvernig eru skilaboðin á símsvaranum/talhólfinu hjá þér?

"Þetta er hjá Haraldi og Unu Björk. Við komumst ekki í símann núna.Vinsamlegast skildu eftir skilaboð."

Hverjir voru fyrstu tónleikarnir sem þú fórst á?

Stuðmenn í Laugardalshöll. Man ekki hvaða ár þetta var.

Hvaða hlut myndir þú fyrst bjarga úr eldsvoða?

Myndasafninu mínu.

Hver er þinn helsti veikleiki?

Fullkomnunarárátta.

Hvenær táraðist þú síðast í bíó?

Ég man ekki eftir að hafa tárast nýlega í bíó nema þá á ítölsku myndinni Lífið er dásamlegt.

Finndu fimm orð sem lýsa persónuleika þínum vel.

Konan mín segir: einbeittur, sterkur, viðkvæmur, duglegur, traustur.

Hvaða lag kveikir blossann?

"(Come on Baby) Light My Fire" með The Doors.

Hvert er þitt mesta prakkarastrik?

Ég er góður strákur.

Hver er furðulegasti matur sem þú hefur bragðað?

Grænlenskt hvalspik (maddak) borið fram af grænlenskum veiðimanni í Isortoq.

Hvaða plötu keyptirðu síðast?

"12. ágúst 1999" með Sálinni hans Jóns míns.

Hvaða leikari fer mest í taugarnar á þér?

Jodie Foster. Of væmin fyrir minn smekk.

Hverju sérðu mest eftir í lífinu?

Ég sé ekki eftir neinu.

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Ég er í miklum vafa. Ég er þó alveg viss um að við munum aldrei fá að vita rétta svarið í þessum heimi.