HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmt Þórhall Ölver Gunnlaugsson, 42 ára Reykvíking, í 16 ára fangelsi fyrir að bana Agnari Wilhelm Agnarssyni, 48 ára, á heimili þess síðarnefnda á Leifsgötu 28 aðfaranótt 14. júlí á síðasta ári.

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmt Þórhall Ölver Gunnlaugsson, 42 ára Reykvíking, í 16 ára fangelsi fyrir að bana Agnari Wilhelm Agnarssyni, 48 ára, á heimili þess síðarnefnda á Leifsgötu 28 aðfaranótt 14. júlí á síðasta ári.

Í dóminum kemur fram að Þórhallur Ölver hafi banað Agnari með því að stinga hann með hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði framan og aftan frá. Hæstiréttur segir að þegar skoðuð séu annars vegar ummerki á vettvangi og áverkar á líkinu og hins vegar lítilfjörlegir áverkar á Þórhalli Ölveri þyki sannað að hann hafi veist að Agnari Wilhelm á hrottalegan hátt og sú aðför hljóti að hafa leitt til dauða hans. Þórhallur Ölver viðurkenndi átök við Agnar, en dró þann framburð sinn til baka.

Hæstiréttur benti á að Þórhallur Ölver hefði margsinnis viðurkennt fyrir lögreglu að hann hefði banað Agnari Wilhelm og hafði hann fyrir aðalmeðferð málsins staðfest skýrslu þess efnis fyrir dómi.

Hæstiréttur segir að af læknisfræðilegum gögnum málsins megi ráða að fíkniefnaneysla ákærða, ásamt persónuleikaröskun, hafi haft áhrif á gerðir hans. Hæstiréttur vísaði til þess, að samkvæmt hegningarlögum á það ekki að hafa áhrif á refsingu ákærða að verknaðurinn var framinn undir áhrifum fíkniefna.