Fyrir nokkru fór breska flugfélagið Go að auglýsa fargjöld frá Íslandi til London á 10 þúsund krónur. Sá sem þetta ritar hafði í hyggju að næla sér í utanlandsferð á þessu góða verði og fór því á vefsíðu Go til að bóka farið.
Skammt er frá því að segja að eftir margra daga tilraunir hefur ekki tekist að finna eina einustu ferð á vefsíðu Go fyrir 10 þús. kr. til London. Hins vegar stendur til boða fjöldi ferða milli Íslands og London á verðbilinu 13.750 kr. til 23.750 kr. Úrvalið er þó mest á hærra verðinu og einnig á 18.750 kr.
Sömu daga og leitin stóð yfir að Go-ferðunum á lága verðinu, birtust stórar auglýsingar frá flugfélaginu um 10 þús. króna ferðir - sem hins vegar voru ekki til.
Þarna er bersýnilega verið að selja þessar flugferðir undir fölsku flaggi og spurning hvaða vernd neytendur hafa fyrir sölumennsku af slíku tagi. Vel getur verið að Go hafi eina og eina ferð á boðstólum fyrir 10 þúsund krónur. En ef maður getur ómögulega fundið þær, hvað er þá verið að auglýsa?
Ekki verður betur séð en Go sé að hafa Íslendinga að fíflum, því talsmaður fyrirtækisins sagði í viðtali í Morgunblaðinu að flestar 10 þús. kr. ferðirnar væru uppseldar. Ekki nóg með það, heldur upplýsti hann um að ódýru ferðirnar hefðu að mestu leyti selst upp í Bretlandi. Á vefsíðu Go er frétt um að salan á ferðum til Íslands hafi verið kynnt í Bretlandi um miðjan febrúar. Þetta var hins vegar ekki kynnt hér á landi fyrr en um miðjan apríl. Á meðan höfðu breskir viðskiptavinir Go haft tveggja mánaða næði til að fá allar ferðirnar á 10 þús. kr.
Samt er haldið áfram að telja okkur Íslendingum trú um að Go bjóði ferðir á 10 þús. kr. þegar raunin er sú að þær kosta 40% til 140% meira. Þá er allt eins gott að ferðast bara til London með Heimsferðum, SL eða Flugleiðum. Þar fást ferðir á bilinu 18 til 20 þús. kr. og þar er engin flókinn leit, því þetta verð stendur til boða í öllum auglýstum ferðum fyrirtækjanna, ekki bara örfáum. Eftir á að hyggja skiptir líka talsverðu máli að þessi félög fljúga til London að morgni eða seinnipart dags, en ekki um miðja nótt eins og Go gerir.
Höfundur er íþróttanuddari.