Von er á Abdullah Jórdaníukonungi og Rainu drottningu í opinbera heimsókn til Íslands dagana 26. og 27. maí næstkomandi.
Von er á Abdullah Jórdaníukonungi og Rainu drottningu í opinbera heimsókn til Íslands dagana 26. og 27. maí næstkomandi.
ABDULLAH II, konungur Jórdaníu, og Rania drottning koma í opinbera heimsókn til Íslands dagana 26.-27. maí næstkomandi í boði forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar.

ABDULLAH II, konungur Jórdaníu, og Rania drottning koma í opinbera heimsókn til Íslands dagana 26.-27. maí næstkomandi í boði forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Í för með konungshjónunum verða börn þeirra tvö, Hussein prins og Iman prinsessa, ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Jórdaníu og fjölmennu föruneyti.

Dagskrá heimsóknarinnar hefst með móttökuathöfn á Bessastöðum og viðræðum Jórdaníukonungs og forseta Íslands. Jafnframt munu ráðherrar úr fylgdarliði konungs eiga fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum.

Á fyrri degi heimsóknarinnar mun konungur m.a. kynna sér íslensk hátæknifyrirtæki. Hann heimsækir höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar og síðar um daginn kynna íslensk hugbúnaðarfyrirtæki konungi og sendinefnd hans starfsemi sína. Þá mun konungur gera grein fyrir þeim möguleikum sem íslenskum fyrirtækjum bjóðast í Jórdaníu, segir í frétt frá skrifstofu forseta Íslands. Rania drottning, sem lagt hefur áherslu á menntun og málstað barna, mun eiga fund með forstjóra Barnaverndarstofu og jafnframt fræðast um það hvernig staðið er að umferðarfræðslu fyrir yngstu vegfarendur. Fyrri degi heimsóknarinnar lýkur með hátíðarkvöldverði að Bessastöðum.

Síðari dag heimsóknarinnar verður haldið til Svartsengis. Þar fá konungshjónin og fylgdarlið þeirra stutta fræðslu um jarðfræði og jarðsögu Íslands og kynnt verður starfsemi orkuversins. Þá munu fulltrúar frá Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna gera grein fyrir starfi skólans. Þaðan verður farið í Bláa lónið og aðstaða þar skoðuð en síðan halda konungshjónin og fylgdarlið af landi brott.