VIÐRÆÐUR hafa verið teknar upp við Breta um Hatton Rockall og hafa embættismenn landanna þegar hist einu sinni. Frekari fundir eru ráðgerðir í haust.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að hann hafi tekið málið upp við John Prescott, varaforsætisráðherra Bretlands, þegar þeir hittust á Þingvöllum síðastliðið sumar og á fundi hans með Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, í febrúar hefði orðið að samkomulagi að sérfræðingar landanna myndu hittast til að ræða málið.
Fundað í mars og aftur í haust
"Viðræður embættismanna landanna fóru fram í London 23. mars," segir Halldór. "Voru þær að mínu mati afar gagnlegar og komu aðilar sér saman um að halda þeim áfram á haustmánuðum. Báðir aðilar gera sér grein fyrir því að til þess að ná samkomulagi í málinu þurfa hinir tveir aðilarnir, Færeyjar og Írland, einnig að koma að því."Halldór segir að í utanríkisráðuneytinu hafi verið talið tímabært, m.a. í ljósi þróunar mála á undanförnum árum, að koma aftur á viðræðum milli aðila Hatton Rockall-málsins, þ.e. Íslands, Færeyja, Bretlands og Írlands, og endurmeta stöðu þess.
Breyttar forsendur
"Í því sambandi má nefna í fyrsta lagi að landgrunnsnefndin hefur nýverið tekið til starfa á grundvelli hafréttarsamningsins, sett sér starfsreglur og samþykkt tæknilegar og vísindalegar viðmiðunarreglur," segir Halldór. "Nefndin er nú reiðubúin til að taka á móti greinargerðum frá strandríkjum um mörk landgrunns þeirra utan 200 mílna. Í öðru lagi eru nú þrír af fjórum aðilum Hatton Rockall-málsins, þ.e. Ísland, Írland og Bretland, aðilar að hafréttarsamningnum og því með sameiginlegan lagalegan grundvöll. Í þriðja lagi hefur, sem kunnugt er, náðst töluverður árangur á undanförnum árum í afmörkun hafsvæða á Norðaustur-Atlantshafi og hafa Ísland, Bretland og Færeyjar meðal annars komið þar við sögu. Síðast en ekki síst hefur að undanförnu orðið vart við aukinn áhuga olíufélaga á Hatton Rockall svæðinu, m.a. hér á landi."Samkvæmt ákvæðum hafréttarsamningsins gerir landgrunnsnefndin tillögur um ytri mörk landgrunns (þ.e. gagnvart alþjóðlega hafsbotninum). Þegar um ytri mörk landgrunnssvæðis er að ræða, sem tvö eða fleiri ríki gera kröfu til, er hugsanlegt að þau hafi samstarf við framlagningu greinargerða til landgrunnsnefndarinnar.
Landgrunnsnefndin fjallar hins vegar ekki um afmörkun landgrunns milli tveggja eða fleiri ríkja. Þetta er staðfest í starfsreglum nefndarinnar. Viðkomandi ríki fara því sjálf með afmörkun landgrunns sín á milli og nefndin má ekki gera neitt sem hefur áhrif þar á.
Þarf samkomulag um skiptingu eða sameiginlega nýtingu
Halldór segir að annars vegar sé ljóst að nást þurfi niðurstaða um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Hatton Rockall-svæðinu, á grundvelli tillagna landgrunnsnefndarinnar, og hins vegar að aðilar þurfi að ná samkomulagi um skiptingu svæðisins sín á milli eða um að svæðið verði sameiginlegt nýtingarsvæði."Málið er býsna flókið og viðbúið að erfitt verði að finna lausn á því," segir Halldór. "Við munum ekki láta okkar eftir liggja í því efni, enda er hætt við því að nái aðilar ekki samkomulagi muni kostnaðarsamar greinargerðir aðila til landgrunnsnefndarinnar verða unnar fyrir gýg og hugsanlegar auðlindir á svæðinu liggja ónýttar í jörðu."
Rockall er granítklettur í Atlantshafi, um 400 kílómetra norðvestur af Írlandi. Bretar slógu eign sinni á klettinn árið 1955. Kletturinn er aðeins um 100 metrar að ummáli og óbyggður. Í Rockall-troginu svokallaða er nú talið vera eitt mest spennandi olíuleitarsvæði í okkar heimshluta.