[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÓL, SANDUR, nærbuxur, tattú og grænn drykkur með blárri froðu og regnhlífum og fín veisla. Hér er í raun allt komið fram af minni hálfu og það sem á eftir kemur skylduuppfylling.

SÓL, SANDUR, nærbuxur, tattú og grænn drykkur með blárri froðu og regnhlífum og fín veisla. Hér er í raun allt komið fram af minni hálfu og það sem á eftir kemur skylduuppfylling.

Hljómsveitin Blink 182 var án efa stofnuð í Bandaríkjum Norður-Ameríku á ofanverðri 20. öld. Meðlimir eru þrír, sem hefur oft gefist vel (sjá t.d. Cream) og spila á þessi venjulegu hljóðfæri, bassa, gítar og trommur. Mark Hoppus leikur á bassa og syngur, Tom DeLonge leikar á gítar og syngur og á trommur leikur Travis nokkur Barker og er það vel. Allar nánari upplýsingar um þá félaga er hægt að nálgast á heimasíðu Blink, www.blink182.com.

Í fyrsta lagi: Flott að diskurinn er líka CD-ROM, boðið er uppá stutt myndband og fullt af einhverju dóti sem menn geta dundað sér við að skoða í tölvunni sinni.

Forsíðuna prýðir hin barmmikla Janine sem hefur, eftir heimildum undirritaðs, getið sér gott orð fyrir leik í erótískum kvikmyndum og þykir af sumum vera fremst meðal jafningja.

Við fyrstu hlustun rann diskurinn átakalaust í gegn að mig minnir. Það eru nokkur flott Kalíforníunördarokklög sem eru alveg tilvalin í bílinn (búi menn svo vel að vera með tæki og tól til tónlistarneyslu þar) eða út á svalir í stuttermaskyrtu og þannig dóti.

Við seinni hlustanir kemur hann skemmtilega á óvart. Tónlistin er gítarsúpa þar sem hausarnir á söngvurunum fljóta ofan á eins og ólífur. Það er mikið af röddunum sem gera súpuna rjómalagaða og gefa henni aukna vídd, ef svo má að orði komast. Þegar ég er að skrifa þetta get ég ekki hætt að hugsa um sand og seglbretti, nú eða steypu og hjólabretti. Grænn drykkur með blárri glimmerfroðu er enn að trufla mig svínslega.

Hvernig reyndist diskurinn við ákveðnar aðstæður?

Með morgunnmat: Mjög vel, sem kom nett á óvart. Það er mjög gott að vakna við hann með Cheerios og kaffi. Sennilega er það krafturinn og raddirnar sem gera þetta, annars veit ég það sosum ekki. Gott með morgunnmat.

Á leiðinni í skólann: Fínt. Enda virkar flest á leiðinni í skólann og það er svo kalt að manni er skítsama.

Með hádegismatnum: Nú verð ég að viðurkenna að ég kann að hafa hlaupið á mig og hef e.t.v. hlustað fulloft á hann með litlu sem engu millibili. Þetta jaðrar við einhverja veiki reikna ég með. Ég tek mér frí í hádeginu.

Heima með sjónvarpinu: Furðuvel til að byrja með en svo verður baráttan fljótlega vonlaus þegar Logi Bergmann kemur á skjáinn. Logi sogar mann einfaldlega að skjánum og Blink bíður lægri hlut og ég slekk á þeim til auka ekki á þjáningar þeirra.

Í bíl á leið í veislu: Svínslega viðeigandi. Hér er diskurinn á heimavelli. Fjórir strákar í bíl að drekka gos og borða popp. Tónlistin er frábær til að þegja og hlusta á, a.m.k. flest lögin og svo er hún sannarlega vel til þess fallin að fara með hlutverk bakgrunns undir háværu tali um fótbolta og þannig... Þéttur hljómur, kraftur og keyrsla sem og skemmtilegar raddaðar laglínur gera einkar gott mót. Eiga ótrúlega vel við ljósastaurana sem þjóta hjá... "All the small things. True care, truth brings, I'll stakel forthreift bester sentre ... Na Na Na!"eða þannig. Sem sagt gott.

Í veislunni: Það er ekki hægt að segja að menn hafi sett hljóða þegar Blink voru settir í spilarann. Það er mjög gaman að öllum virðist vera sama hvaða tónlist er spiluð í veislum og enginn nennir að koma með þá tónlist sem honum eða henni þykir vænst um. Um leið og eitthvað er sett á sem er ekki algerlega smurt og allir þekkja verður allt ömurlegt og allir með stæla og einhverja vitleysu. Spilaðu Red Hot, nei Metallica, nei Dj Mutherfucker And The Clan. Nei Napalm Death eða ég er farinn út. Farðu þá út aumingi. Hvað kallarðu mig? Viðbjóður. Drullist báðir út. Strákar! Spilum Blink. Vilt þú líka fara út? Nei nei Britney er fín, áttu kók? Já ég er að meina það ég er ekki að grínast í þér, ég færi aldrei að fífla þig...

Blink virkar samt alveg í veislum.

Heima eftir veisluna: Uppí rúm og Blink í geislaspilarann. Já, já gott, skemmtileg flétta hér. Nú og hér fer allt að snúast. Jú það er ekki um að villast ég snýst bæði um x-ás og y-ás þá er mál að slökkva á allri tónlist og toga sængina upp fyrir haus og vona.

Góða nótt.

Diskurinn er mjög fínn, alveg tilvalinn. Mikill kraftur, flottar laglínur, mikill gítar, flott stelpa framan á, flott tattú. Ég myndi kaupa hann ef ég hefði ekki fengið hann fyrir að skrifa þennan plötudóm.