SAMSKIPTI Íslendinga og kvikmyndaiðnaðarins í Hollywood hafa löngum verið í ætt við það sem kallast tragikómedía á fagmáli kvikmyndaborgarinnar. Þar höfum við einatt borið skarðan hlut frá borði og allt það samkrull hið ógæfulegasta.

SAMSKIPTI Íslendinga og kvikmyndaiðnaðarins í Hollywood hafa löngum verið í ætt við það sem kallast tragikómedía á fagmáli kvikmyndaborgarinnar. Þar höfum við einatt borið skarðan hlut frá borði og allt það samkrull hið ógæfulegasta. Áætlanir um hinar og þessar stórmyndir, sem á að taka á landinu bláa, hafa undantekningalítið runnið útí sandinn. Hver man ekki bægslaganginn í kringum Leitina að eldinum og Enemy Mine?

Enemy Mine komst þó svo langt að tökur hófust í Vetmannaeyjum á sínum tíma. Ágreiningur kom upp um ýmis atriði, leikstjórinn rekinn, myndin tekin um síðir annarsstaðar, undir stjórn nýs leikstjóra. Afraksturinn sjálfsagt svipur hjá sjón - miðað við það sem hefði getað orðið. Leitin að eldinum - The Quest For Fire var einnig komin á góðan rekspöl. Búið að byggja sviðsmyndir austur á söndum ef ég man rétt. Lengra komst sú framkvæmd ekki; "Köttur útí mýri..."

Af og til grípur um sig stjörnuskjálfti á fjölmiðlum, einhverjar bollaleggingar vestan hafs verða að forsíðuefni og sjónvarpsstöðvarnar halda hvorki vatni né vindi, núna á að kvikmynda með pomp og pragt. Fyrir nokkrum árum var það litli risinn Miramax sem hugðist gera, að manni skildist, urmul mynda hér norður í Dumbshafi. Ekkert hefur bólað á þeim enn. Svo var það myndin um Mars. Fjölmiðlarnir nánast farnir að elta Val Kilmer uppá Sprengisandi með tæki sín og tól er þeir komust að því að þetta hafði aldrei staðið til, fyrstu kannanir leiddu í ljós að regndrepa miðhálendið hentaði ekki sem staðgengill skrælnaðrar plánetu.

Þessi málalok eru þó, þegar upp er staðið, mikið mun heppilegri en þær hörmungar sem festar hafa verið á filmu í samvinnu landanna.

Því rak mann í rogastans þegar enn einn raunakaflinn í tragíkómedíunni upphófst vestur í Hollywood, nú á vordögum. Þar hafði viðkomu sendinefnd glæst með æðsta mann lýðveldisins (af öllum mönnun), glaðbeittan í fararbroddi, biðjandi um vonarpening í miðju helvíti kapítalismans, Draumaverksmiðjunni. Bauð iðnaðarmönnum allt á einu bretti; landið og arfinn, sjálfan helgidóminn, fornsögurnar. (Hver skyldi eiga kvikmyndaréttinn? Baugur?). Sjálfsagt hefur íslenska hirðin ekki séð nýjustu "víkingamynd" Hollywoodborgar, The Viking Saga, eina af verstu myndum sem gerðar hafa verið á jarðríki.

Vissulega gæti það gerst að iðnaðarmönnunum tækist að fanga eitthvað í ætt við Sögurnar, og vissulega yrði það örlítil búbót í kassann. Sú hætta er þó fyrir hendi að við verðum aldrei ánægðir með Hollívúddseringu Íslendingasagna. Þær eru okkur alltof dýrmætar til þess. Epískir sögumenn á borð við John Ford og Kurosawa , sem þar að auki þekktu og virtu Íslendingasögurnar, eru ekki lengur ofar moldu og arftakar þeirra fáir. Polanski og Eastwood koma upp í hugann; hafa fengist við hliðstætt efni með eftirminnilegum árangri.

Það er skondið og skondið ekki að velta fyrir sér hvað getur gerst ef óprúttin afþreyingarmaskínan fer að grauta í menningarvéinu. Þeir sem vilja sjá Kevin Costner sem Gunnar á Hlíðarenda, Gwyneth Paltrow sem Hallgerði langbrók, Rod Steiger sem Njál, rétti upp hönd. Arnold Schwarzenegger sem Þorgeir Hávarsson og slagsmáladúllan Jean Claude Van Damme gæti þá eins vel lent í rullu Þormóðs skálds Bessasonar. Sandra Bullock sem Kolbrún grænlenska, Danny De Vito brunnmígurinn. Það er varla grín að þessu gerandi.

Vafalaust kemur að því að einhvert séníið uppgötvar kvikmyndaleg gæði Sagnanna þar vestra, en ég held að við megum þakka fyrir að þurfa ekki að upplifa það. Það er hinsvegar rannsóknarefni hversvegna við erum svona veik fyrir fræga fólkinu, Hollywood og stjörnunum; "starstruck", einsog það nefnist á fagmálinu.

Sæbjörn Valdimarsson