ÞAÐ ER alkunna að ómögulegt er að gera gagnrýnendum til geðs. Þeir halda uppskeruhátíð á palladómum sínum á kvikmyndahátíðinni í Cannes og gagnrýna allt sem hönd á festir. En á þessu ári verður að segjast að hátíðarmyndirnar hafa ekki fengið eins slæma útreið og oft áður, hauskúpur eru teljandi á fingrum annarrar handar og aðeins ein mynd hefur verið svipt höfuðleðrinu, Estorvo eftir brasilíska leikstjórann Ruy Guerra, sem hefur fengið ómjúkar viðtökur hjá fjölmiðlum.
Engu að síður finna gagnrýnendur ástæðu til að kvarta; þeim finnst heldur dauft yfir valinu á myndum í aðalkeppnina og tala um að það vanti allan ferskleika. Úr því rættist á miðvikudagskvöld þegar mynd danska leikstjórans Lars von Triers, Dancer in the Dark, var frumsýnd. Enn einu sinni hefur von Trier stigið fram á sjónarsviðið með hrikalega sögu af píslarvætti, eins konar Jesúgervingi, sem fórnar sér fyrir aðra, að þessu sinni til að sonur hans haldi sjóninni.
Myndin hefur vakið almenna hrifningu og er að sama skapi listræn, frumleg og sterk ádeila á bandarískt réttarkerfi. Ekki er hægt að skrifa um hana án þess að geta snilldartilþrifa Bjarkar í aðalhlutverkinu, sem er ekki ósennilegt að verði valin besta leikkona hátíðarinnar. Það yrði þá annað árið í röð sem ófaglærðir leikarar yrðu verðlaunaðir. Vænta má að myndin fái einhver verðlaun og víst yrði það kaldhæðni örlaganna ef Björk fengi styttu í farteskið en von Trier færi tómhentur heim.
Bergman um Bergman
Gagnrýnendur hafa annars verið hvað hrifnastir af Trolosa úr smiðju sænska leikstjórans Liv Ullmann, sem byggð er á handriti Ingmars Bergmans. Þótt myndin sé í þyngri kantinum og heldur löng, eins og reikna má með þegar Bergman og Ullmann eru annars vegar, og taki á hversdagslegum viðfangsefnum, eins og elli og afbrýði, þá þykja samræður myndarinnar innihaldsríkar og hún ómissandi fyrir aðdáendur Bergmans, sem skrifar sjálfan sig inn í handritið sem eina sögupersónuna.Önnur sænsk mynd verður frumsýnd um helgina, Söngvar af annarri hæð eftir Roy Andersson, og er hennar beðið með eftirvæntingu; spurst hefur út að hún sé bitastæð og státi af óvæntum endalokum. Ef til vill eru þessi óvæntu endalok ekki önnur en þau að það eigi eftir að klippa þau inn í myndina, því Andersson vinnur enn að lokaútgáfunni, sem frumsýnd verður síðasta keppnisdaginn.
Coen-bræður gegn Trier
Franska myndin "Les Destinees Sentimentales" hefur vakið hrifningu, en hún er byggð á skáldsögu Jacques Chardonnes. Í aðalhlutverkum í þessari mynd Olivier Assayes er einvalalið franskra leikara, Emanuelle Béart, Isabelle Huppert og Charles Berling og ætti að vera vandað til verka því myndin kláraðist rétt fyrir hátíðina, en gerð hennar hafði þá staðið yfir í fimm ár. Íranski leikstjórinn Samira Makhmalbaf er yngsti leikstjórinn sem komist hefur í keppnina og getur vel við unað með mynd sína "Blackboards"; hún er varla líkleg til meiri afreka.Coen-bræður hafa aldrei lotið í gras fyrir von Trier í aðalkeppninni í Cannes og teljast alltaf sigurstranglegir, þótt kvikmynd þeirra "O Brother, Where Art Thou?" hafi verið tekið með heldur meira jafnaðargeði af gagnrýnendum en vonast hafði verið eftir. Myndin þykir dæmigerð fyrir þá bræður, en ekki rísa upp fyrir það. Hið sama gildir um "Bread and Roses" Ken Loach og "The Golden Bowl" frá James Ivory; sem er með óaðfinnanlegri umgjörð eins og aðrar myndir hans, en það vantar einfaldlega broddinn í hana.
Brauð og rósir
Hafa verður í huga að allar fá þessar myndir góða dóma, og jafnvel afbragðs dóma, miðað við myndir á markaðnum almennt. En mælikvarðinn virðist vera hærri í þessari keppni en á meðalári og gagnrýnendur geta því leyft sér meiri sérvisku. Og svo er alltaf hægt að velta því fyrir sér hvort eftir einhverju sé að sækjast; er allt gull sem glóir? Í gegnum tíðina hafa þær myndir sem hreppt hafa gullpálmann hvorki gert brauð né rósir í aðsókn og jafnvel farið heldur hraklega fyrir þeim. Á sama tíma hafa myndir á borð við Lífið er fallegt frá Benigni og Allt um móður mína frá Almodovar farið sigurför um heiminn og endað á því að vinna til Óskarsverðlauna. En keppni er keppni og sigur er sætur, - þótt ekki sé til meira unnið en þess eins að koma fyrstur í mark.