STJÓRN Byggðastofnunar hefur ekki tekið afstöðu til hvort stofnunin geri heildarúttekt á þjóðhagslegu vægi hrossaræktar og hestamennsku. Í sambandi við átaksverkefni í hrossarækt sendi landbúnaðarráðuneytið Byggðastofnun beiðni um að gera slíka úttekt.

STJÓRN Byggðastofnunar hefur ekki tekið afstöðu til hvort stofnunin geri heildarúttekt á þjóðhagslegu vægi hrossaræktar og hestamennsku. Í sambandi við átaksverkefni í hrossarækt sendi landbúnaðarráðuneytið Byggðastofnun beiðni um að gera slíka úttekt.

Hjá Byggðastofnun er samt sem áður unnið að því að athuga hvaða aðferðum á að beita við að nálgast málið og hvað vilji er til að skoða, hvaða upplýsingar munu skipta máli og hverjar þeirra eru aðgengilegar.

Að sögn Þórarins Sólmundarsonar hjá Byggðastofnun á Sauðárkróki var hugmyndin sú að stofnunin reyndi að meta þjóðhagslegt vægi hestamennskunnar og hrossaræktarinnar meðal annars útfrá gjaldeyristekjum og fjölda ársverka í greininni og tengdum greinum. Þegar greining á verkefninu liggur fyrir verður leitað til hagsmunaaðila um hvort hagkvæmt sé að gera úttektina og hvernig þeir eru tilbúnir til að koma að því fjárhagslega.

Þórarinn sagði að í fljótu bragði virtist slík úttekt mjög tímafrek og tæki marga mannmánuði að vinna hana. Einnig telur hann mjög erfitt að finna pottþéttar upplýsingar sem hægt væri að byggja á. Hvergi sé hægt að fletta upp í skýrslum svo dæmi sé tekið. "Það virðist sama hvar maður setur öngulinn niður, hann kemur alltaf tómur upp," sagði hann. "Vegna þessa upplýsingaskorts er erfitt að sýna fram á mikilvægi greinarinnar og erfitt að bera hana saman við aðrar greinar landbúnaðarins."