Einar Þór Daníelsson á ferðinni - Steinar Þór Guðgeirsson, fyrirliði Fram, reynir að stöðva hann.
Einar Þór Daníelsson á ferðinni - Steinar Þór Guðgeirsson, fyrirliði Fram, reynir að stöðva hann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
PÉTUR Pétursson, þjálfari KR, var að vonum ánægður með sigur sinna manna gegn Fram í gær en hann var að stjórna liðinu í fyrsta skipti á Íslandsmóti. Pétur, sem lék með KR-ingum á árum áður eftir að hann sneri heim úr atvinnumennskunni, tók við Íslandsmeisturunum eftir síðasta tímabil af Atla Eðvaldssyni.

Ég er mjög ánægður. Mér fannst mínir menn vera að reyna að spila fótbolta allan tímann þrátt fyrir að aðstæður til þess hafi ekki verið upp á það besta. Það var sérstaklega erfitt á móti vindinum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik var þetta miklu skárra. Framararnir byrjuðu ágætlega og fengu þokkaleg færi en eftir það fannst mér engin hætta skapast hjá Fram."

Var þetta betri frammistaða hjá liðinu en þú bjóst við?

"Ég vissi svo sem ekki alveg hvernig staðan væri á liðinu enda hafa menn verið að koma til landsins rétt fyrir fyrsta leik. Ég veit samt alveg hvað þessir strákar geta og get því treyst á þá. Það var mjög ánægjulegt að byrja mótið á sigri og ég er mjög stoltur af strákunum. Þetta var bara fyrsti leikur af mörgum og auðvitað eigum við eftir að fínpússa margt í leik okkar," sagði Pétur.

Hvað varst þú ánægðastur með í leik þíns liðs?

"Ég var mest ánægður með að menn skildu ná að spila eins góðan fótbolta eins og raun bar vitni. Strákarnir voru þolinmóðir, reyndu að ná upp spili og létu aðstæðurnar ekki pirra sig. Þá var mjög ánægjulegt að sjá Andra skora þetta frábæra mark eftir öll þessi erfiðu veikindi sem hann hefur gengið í gegnum. Andri gerði þetta einstaklega vel og með sama áframhaldi verður hann mjög skæður í sumar."

Nú færð þú tvo menn í hópinn fyrir næsta leik sem voru í banni í þessum leik. Verður ekki erfitt að velja í liðið?

"Við erum með mjög sterkan hóp og ég kem alveg örugglega til með að nota allan mannskapinn í sumar. Auðvitað er erfitt að velja byrjunarliðið og þannig á það bara að vera," sagði Pétur.

Guðmundur Hilmarsson skrifar