SKÓGARSÓLEYIN litla er líklega ekki mjög algeng í íslenskum görðum, þótt hún vaxi villt á Norðurlöndum.
Anemone-ættkvíslin er stór, hátt á annað hundrað tegundir og tilheyrir sóleyjaættinni. Anemónur vaxa á norðurhveli jarðar í tempraða beltinu og margar þeirra eru fjallaplöntur og þola því óblíða veðráttu eins og hér er á stundum. Laufblöð Anemone eru mikið skipt og eitt sérkenni ættkvíslarinnar er að á blómstönglinum eru nokkur laufblöð, sem mynda eins og krans dálítið fyrir neðan blómið. Þeir sem hafa skoðað sóleyjarblóm, hafa sjálfsagt tekið eftir að blómblöðin eru mismunandi, lítil, græn bikarblöð og svo stærri, gul krónublöð. Þetta er kölluð tvöföld blómhlíf. Anemónur eru hins vegar með einfaldri blómhlíf, þar sem öll blómblöðin eru jafnstór og með sama lit, þau eru oft fimm að tölu, en geta þó verið miklu fleiri.
Anemone-ættkvíslinni má skipta í þrjá flokka, lágvaxnar, vorblómstrandi, hávaxnar, sem blómstra um mitt sumar eða síðsumars og loks þær sem eru ættaðar frá Miðjarðarhafslöndum og eru ekki fyllilega harðgerðar hér hjá okkur. Þó eru það líklega þær síðasttöldu, sem mest eru ræktaðar á Íslandi. Þær ganga undir latneska heitinu Anemone coronaria og hafa fengið íslenska nafnið Maríusóley. Á vorin fást í búðum hnýði Maríusóleyjarinnar, sem er komið til eftir kúnstarinnar reglum og blómstra svo ríkulega frá því um mitt sumar fram á haust. Maríusóleyin lifir stundum veturinn af þótt hún sé ættuð af hlýrri slóðum, en blómgunin minnkar ár frá ári, þannig að best er að rækta nýjar sumar hvert.
Þessu er öðru vísi farið með skógarsóleyna, Anemone nemorosa. Hún tilheyrir lágvaxna, vorblómstrandi hópnum. Skógarsóleyin litar laufskóginn fagurlega á vorin, þar sem hún vex í breiðum. Blóm hennar springa út áður en skógurinn tekur að laufgast og hún er svo snör í snúningum að í sínum réttu heimkynnum nær hún að þroska fræ áður en lauf trjánna skyggja um of á birtuna. Þótt hún blómstri á Norðurlöndum í mars, apríl er hún seinna á ferðinni hér, blómstrar venjulega um miðjan maí og fram í júníbyrjun. Á hverjum blómstöngli vex aðeins eitt blóm, sem lyftir sér í 10-15 cm hæð yfir moldu. Algengasti blómliturinn er hvítur og blómblöðin eru stundum með bleikleitan litartón á neðra borði, þannig að blómið virðist skipta um lit, eftir því hvort það er opið eða lokað, en skógarsóleyin opnar best blómið í sólskini. Líka eru til fyllt afbrigði af skógarsóleynni, en uppáhalds afbrigðið mitt er þó líklega ‘Robinsoniana' með einstaklega fíngerðum, lavanderbláum lit og ljúfum ilmi og tiltölulega stórum blómum. Skógarsóleyjan myndar sívala, brúna jarðstöngla, sem eru dálítið skriðulir og þannig myndar hún smám saman fallega breiðu. Hér á landi þrífst hún ágætlega hvar sem er í garðinum og er ekki kröfuhörð um jarðveg og vex vel bæði á Norður- og Suðurlandi. Hún þolir líka dálítinn skugga, þannig að við getum ræktað hana sem skógarbotnsplöntu undir trjám eða runnum. Þar sem hún er dálítið skriðul, vara sumir við henni í steinhæðinni, en það er ekki flókið að beina henni á réttar brautir, bara ef fylgst er vel með. Eins og áður sagði, er skógarsóleyin snör í snúningum, hún er búin að ljúka sínu vaxtarskeiði og er horfin af yfirborðinu um mitt sumar, og þá er gott að hafa nálægt henni einhverjar blaðmiklar plöntur, þannig að ekki verði auð skella í beðinu.
Það er alltaf álitamál, hvort jurtir nái verðskulduðum vinsældum eða ekki, en mér finnst skógarsóleyin eiga miklu meiri útbreiðslu skilið í íslenskum görðum.
S.Hj.