Sérstök nefnd, sem starfað hefur á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá því í nóvember sl. leggur til að ítarleg könnun fari fram á sameiningu þeirra í eitt eða tvö sveitarfélög eða að lögbundið verði sameiginlegt svæðisskipulag þeirra.

Sérstök nefnd, sem starfað hefur á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá því í nóvember sl. leggur til að ítarleg könnun fari fram á sameiningu þeirra í eitt eða tvö sveitarfélög eða að lögbundið verði sameiginlegt svæðisskipulag þeirra. Jafnframt leggur nefndin til, að atkvæðagreiðsla fari fram á meðal íbúa sveitarfélaganna um þessar tillögur að ári liðnu og að kosið verði á grundvelli þeirrar niðurstöðu, sem þar fæst í borgar- og sveitarstjórnarkosningum að tveimur árum liðnum.

Nefndin hefur sett fram þrjár hugmyndir. Ein er sú, að öll sveitarfélögin á þessu svæði verði sameinuð undir einn hatt. Hinar tvær snúast um tvö sveitarfélög á svæðinu en munurinn á þeim byggist á því hvort Kópavogur yrði sameinaður Reykjavík og öðrum sveitarfélögum eða Garðabæ, Hafnarfirði og Bessastaðahreppi.

Það er fagnaðarefni, að mál þetta er komið til umræðu á ný. Það var töluvert rætt fyrir nokkrum árum og þá lýsti Morgunblaðið þeirri skoðun, að eðlilegt væri að sameina í eitt sveitarfélag, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Mosfellsbæ og Kjalarneshrepp. Og síðan Hafnarfjörð, Garðabæ og Bessastaðahrepp í annað sveitarfélag. Frá því að þær umræður fóru fram hefur Kjalarneshreppur sameinast Reykjavík en nú leggur nefndin til að Kjósarhreppur sameinist höfuðborginni einnig.

Skoðun Morgunblaðsins er óbreytt. Skynsamlegt er að tvö sveitarfélög verði á þessu svæði. Rökin fyrir þeirri skiptingu eru bæði efnisleg og tilfinningaleg. Samstarf og samskipti og söguleg tengsl Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps hafa lengi verið með þeim hætti, að eðlilegt er að þar verði til eitt sveitarfélag, sem hugsanlega mundi sameinast byggðunum sunnan Hafnarfjarðar og þar með teygja sig langleiðina til Suðurnesja.

Þótt Kópavogur hafi eflzt mjög á undanförnum árum er eðlilegt engu að síður, að bæjarfélagið sameinist Reykjavík eins og hugmyndir komu raunar upp um fyrir nær hálfri öld og urðu þá ekki að veruleika af pólitískum ástæðum. Kópavogur er jafnmikill hluti af Reykjavík og Breiðholtshverfi eða Grafarvogur í skipulagslegu tilliti.

Samstarf sveitarfélaganna á þessu svæði er orðið svo mikið og náið og hagsmunir þeirra samantvinnaðir að engin rök eru lengur fyrir núverandi skiptingu. Það er alveg ljóst, að hún hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir íbúa og skattgreiðendur í sveitarfélögunum.

Það er ekkert vit í því að halda uppi mörgum sveitarstjórnum með öllum þeim sérstaka kostnaði, sem þeim fylgir í byggðum, sem hafa runnið saman.

Það er tæpast hægt að finna nokkur rök gegn sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Í minni sveitarfélögunum er fyrst og fremst um að ræða tilfinningaleg rök um sjálfstæði og í einhverjum tilvikum er hægt að halda því fram, að minni sveitarfélög og það návígi sem í þeim er kunni að tryggja betri þjónustu en ella og betri þekkingu embættismanna og þjónustuaðila á þörfum íbúanna.

Þessi rök vega hins vegar ekki þungt þegar litið er á heildarmyndina. Þar blasir við, að kostnaður vegna yfirstjórnar minnkar. Skipulagsmál verða einfaldari viðureignar og margvíslegt hagræði er af því, að ein sveitarstjórn eða tvær fjalli um mál en ekki átta sveitarstjórnir.

Það eru ekki fyrst og fremst íbúar sveitarfélaganna, sem hafa lýst andstöðu við þessar hugmyndir, þegar þær hafa komið til umræðu. Það eru stjórnmálamennirnir og að einhverju leyti embættismenn, sem hafa lagzt gegn þeim.

Þeir aðilar geta hins vegar ekki verið andsnúnir því, að íbúarnir ákveði þetta sjálfir í atkvæðagreiðslu eins og nefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu leggur til. Íbúarnir eru hinn endanlegi dómari í þessu máli. Í aðdraganda slíkrar atkvæðagreiðslu mundu fara fram miklar umræður, þar sem röksemdir með og móti yrðu dregnar fram og lýðræðið réði ferðinni. Íbúum í öllum sveitarfélögunum mundi gefast tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Slíkar umræður mundu áreiðanlega verða mjög gagnlegar fyrir sveitarfélögin öll. Vel má vera, að einhver sveitarfélaganna kæmust að þeirri niðurstöðu, að þau vildu enga sameiningu en önnur mundu sameinast í kjölfar atkvæðagreiðslunnar.

Vonandi bera forystumenn umræddra sveitarfélaga gæfu til að taka þessum hugmyndum vel og efna til slíkrar atkvæðagreiðslu. Þeir eiga ekki að taka frá íbúunum réttinn til þess að taka þessa grundvallarákvörðun sjálfir.