Nóatún 17 þar sem fyrsta Nóatúnsverslunin var opnuð á árinu 1965.
Nóatún 17 þar sem fyrsta Nóatúnsverslunin var opnuð á árinu 1965.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaup Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn, EFA, á öllum hlutabréfum í Kaupási hf. er framhald á þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hjá þeim félögum sem mynda Kaupás. Grétar Júníus Guðmundsson kannaði bakgrunn þessa máls.

Tilboð Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn, EFA, í öll hlutabréf Kaupáss hf. er tilkomið fyrir tilstilli Íslandsbanka F&M, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra EFA. Tilboðið er liður í því að gera Kaupás hf. að almennu hlutafélagi og skrá það á Verðbréfaþingi Íslands. Gylfi sagði að bankinn hafi kannað vilja EFA til að koma inn í það ferli svo og hvort áhugi væri á kaupum EFA á hlut í félaginu. Niðurstaðan úr því var að tilkynnt var í síðustu viku um tilboð EFA í öll hlutabréf í Kaupási hf. Gylfi vildi ekki gefa upp hvaða fjárhæðir væru í tilboðinu.

Einar Örn Jónsson, stjórnarformaður Kaupáss hf., vildi ekki tjá sig um tilboð EFA á þessu stigi að öðru leyti en því að félagið hafi falið Íslandsbanka F&M að vinna að þessu máli og útkoman úr því hafi verið tilboð EFA, sem félagið samþykkti. Hann sagði þó að salan á Kaupási nú væri eðlileg í framhaldi af þróun sem hafi átt sér stað allt frá því að Nóatún eignaðist helmingshlut í 11-11-verslununum á árinu 1996 á móti Kaupfélagi Árnesinga.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er salan á hlutabréfum Kaupáss hf. gerð í góðu samstarfi við Þorstein Pálsson, framkvæmdastjóra félagsins annarra, sem að málinu koma.

Tilkynnt að stefnt skyldi að skráningu

Stjórnir Nóatúns, 11-11 og Kaupfélags Árnesinga samþykktu í mars á síðasta ári að sameinast og mynda keðju verslana á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi undir nafninu Kaupás. Þá var þegar tilkynnt að stefnt skyldi að því að setja hið nýja félag á almennan hlutabréfamarkað og að það yrði skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Sameiningin varð að veruleika 1. maí á síðasta ári. Íslandsbanki F&M annaðist ráðgjöf til handa verslununum varðandi sameininguna og var einnig falið að vinna að því að félagið verði skráð á hlutabréfamarkað.

Reynt var að fá fleiri til samstarfs

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fóru viðræður fram milli eigenda Nóatúns, Kaupfélags Árnesinga, KEA og Kaupfélags Suðurnesja haustið 1998 um hugsanlega sameiningu þessara verslana auk 11-11-verslananna. Tilraunum þar að lútandi var hins vegar hætt um áramótin 1998/1999 og ákveðið að leggja þessar hugmyndir til hliðar. Í framhaldinu hófust hins vegar viðræður milli Nóatúns og Kaupfélags Árnesinga í febrúar 1999, sem leiddu til framangreindrar ákvörðunar mánuði síðar um sameiningu þeirra í Kaupási. Samstarf verslananna tveggja hófst þó fyrr, eða á árinu 1995 er þau stofnuðu innkaupafyrirtækið Búr, sem sér um innkaup á nýlenduvörum fyrir verslanirnar. Sama ár keypti Kaupfélag Árnesinga 11-11-verslanirnar og ári síðar keypti Nóatún síðan helmingshlut í þeim af Kaupfélaginu.

Mikilvægt að eyða óvissu

Gylfi Arnbjörnsson sagði að hugmyndir eigenda Kaupáss hf. og EFA um með hvaða hætti félagið ætti að fara inn á hlutabréfamarkað hafi ekki alveg farið saman. EFA vildi kaupa stærri hlut en Kaupás hafði í byrjun hugsað sér að selja. Upphaflegar hugmyndir Kaupáss hf. voru að selja einungis um 20-30% hlut í félaginu. Það varð hins vegar úr að EFA gerði tilboð í öll hlutabréf félagsins. Gylfi sagði að það hafi verið gert því það væri mat EFA að mikilvægt sé fyrir væntanlega fjárfesta að ekki ríki óvissa um hverjir verði helstu eigendur félagsins. Hlutverk EFA er að leiða félagið inn í aðra samsetningu, mynda hóp fjárfesta, bæði leiðandi eigenda og fagfjárfesta, sem síðan munu standa saman að skráningu Kaupáss hf. á hlutabréfamarkaði á næsta ári. Gylfi sagði að EFA vildi sjá ákveðna þætti kláraða áður en félagið yrði sett á almennan markað. Það væri mikilvægt til að minnka áhættu, en ljóst væri að félagið muni fara í skráningu. Skráning Kaupáss hf. á hlutabréfamarkaði muni stuðla að því að styrkja samkeppni á matvörumarkaði.

Samstarf við erlenda aðila hugsanlegt

Aðspurður um hvort til greina komi að leita til erlendra fjárfesta sagði Gylfi að ekkert væri útilokað í þeim efnum, þó viðræður um slíkt hafi ekki farið fram. Hann sagði Ísland hluta af umhverfinu. Samkeppni á matvörumarkaði væri hörð og skynsamlegt væri að eiga mjög náið samstarf við erlenda aðila. Samstarf við erlenda aðila komi því vel til greina. Hann bætti við að fjárfestar erlendis væru í vaxandi mæli að sjá að Ísland væri áhugaverður kostur fyrir fjárfestingar, hér væri mikill hagvöxtur, menntunarstig landsmanna væri hátt og samfélagið framarlega á öllum mælikvörðum. EFA hefur átt samstarf við erlenda aðila á öðrum sviðum og það mun án efa aukast.

Gamalgróin fyrirtæki verða almenningshlutafélög

Fram kom hjá Gylfa að hugsunin að baki þessari sölu sé á vissan hátt svipuð og þegar FBA og Kaupþing keyptu 75% eignarhlut í Hagkaup, Bónus og tengdum félögum í júní 1998. Markmiðið með þeim viðskiptum var að brúa bilið og aðstoða við umbreytingu á gamalgrónu fjölskyldufyrirtæki í almenningshlutafélag.

Nóatún er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki. Jón Júlíusson opnaði fyrstu Nóatúnsverslunina í Nóatúni 17 í Reykjavík í október 1965. Önnur Nóatúnsverslun bættist við á árinu 1973. Frekari fjölgun verslana varð síðan ekki fyrr en á árinu 1988 en í dag er fjöldi þeirra samtals 11 á höfuðborgarsvæðinu.

Kaupfélag Árnesinga er enn eldra en Nóatún en það var stofnað árið 1930. Kaupfélagið hóf mikla sókn á matvörumarkaði á árinu 1994 og upp frá því fór verslunum þess að fjölga. Velta verslunarsviðs félagsins á árinu 1994 var um einn milljarður króna en hún var komin upp í um 2,7 milljarða á árinu 1998. Með þátttöku Kaupfélags Árnesinga í Kaupási hf. 1. maí á síðasta ári hætti Kaupfélagið þar með sjálft verslunarreksti. Svipaðar breytingar hafa átt sér stað varðandi flest kaupfélögin í landinu á undanförnum árum og einungis örfá þeirra eru enn í verslunarrekstri.

Mikligarður, sem var í eigu Sambandsins sáluga, opnaði fyrstu tvær 11-11-verslanirnar í Reykjavík á árinu 1991. Þar var um nýjung að ræða á matvörumarkaði með svonefndum klukkuverslunum. Markmiðið með þeim var upphaflega að ná til þeirra sem ekki koma í stórmarkaði og eiga erfitt með að koma á hefðbundnum opnunartíma verslana.

Heildarfjöldi verslana Kaupáss hf. er 41, þar af eru 11 Nóatúnsverslanir, 16 verslanir undir merkjum 11-11 og 13 verslanir Kaupfélags Árnesinga. Þessu til viðbótar rekur Kaupás lágvöruverslunina Kostakaup á Selfossi. Heildarfjöldi starfsmanna er um 1.000 í um 700 stöðugildum. Velta Kaupáss hf. á síðasta ári var um 10 milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að velta Baugs var um 25 milljarðar króna, en þar inní er einnig sérvara, s.s. fatnaður.

Hvað er kostgæfnisúttekt?

Tilboð EFA um kaup á hlutabréfum í Kaupási hf. var skilyrt af EFA hálfu og mun endanleg niðurstaða liggja fyrir síðar í þessum mánuði. Í fréttatilkynningu frá EFA frá síðastliðnum föstudegi segir að fram til þess tíma verði unnið að kostgæfnisúttekt á félaginu. Kostgæfnisúttekt vísar til hugtaksins tilhlýðileg kostgæfni (e.: Due Diligence). Um tilhlýðilega kostgæfni segir í upplýsingahandbók Verðbréfaþings Íslands að það sé hugtak sem "snúist um ábyrgð þeirra sem veita upplýsingar á því að þær séu áreiðanlegar og nægjanlegar. Að gerð skráningar- og útboðslýsinga koma margs konar sérfræðingar og er þeim ætlað að sjá til þess að upplýsingarnar sem fram koma séu tæmandi og fullnægi þeim stöðlum sem settir eru fyrir slíka upplýsingagjöf".

Að sögn Gylfa Arnbjörnssonar munu starfsmenn EFA vinna þann hluta kostgæfnisúttektarinnar er varðar viðskiptalega þætti í starfsemi Kaupáss hf. en vinna sérfræðinga verður keypt að varðandi aðra þætti. Hann sagði EFA hafa beitt þeirri aðferð á undanförnum árum í æ ríkari mæli að ganga fyrst frá tilboðum, þegar um kaup á félögum eða fyrirtækjum er að ræða, en fara síðan í skoðun á því hvort þær upplýsingar sem fram koma af hálfu seljenda séu réttar. Þetta hafi sparnað í för með sér.