Hörður Magnússon, Ólafur Adolfsson og Heimir Guðjónsson búa yfir gífurlegri reynslu sem mun nýtast FH-ingum í sumar. Þeir stilltu sér upp í hafnfirsku náttúruperlunni Hellisgerði.
Hörður Magnússon, Ólafur Adolfsson og Heimir Guðjónsson búa yfir gífurlegri reynslu sem mun nýtast FH-ingum í sumar. Þeir stilltu sér upp í hafnfirsku náttúruperlunni Hellisgerði.
ÞAÐ er mál manna að 1. deildin í knattspyrnu hafi sjaldan verið eins sterk og í ár. Reiknað er með hörðum slag um sæti í úrvalsdeildinni og hann hefst í kvöld með fjórum leikjum í fyrstu umferð.

ÞAÐ er mál manna að 1. deildin í knattspyrnu hafi sjaldan verið eins sterk og í ár. Reiknað er með hörðum slag um sæti í úrvalsdeildinni og hann hefst í kvöld með fjórum leikjum í fyrstu umferð. Miðað við spár um gengi liðanna er stórleikurinn á Akureyri þar sem KA tekur á móti FH. Á Hlíðarenda leikur Valur sinn fyrsta leik utan efstu deildar, gegn Þrótti, á Hornafirði er leikið í 1. deild í fyrsta skipti þegar Sindri og Tindastóll eigast við í nýliðaslag og í Borgarnesi tekur Skallagrímur á móti Dalvík. Umferðinni lýkur á morgun þegar ÍR fær Víking í heimsókn í Breiðholtið kl. 17. Morgunblaðið kynnir í dag liðin og leikmannahópana í 1. deild og metur möguleika þeirra á komandi tímabili.

Valsmenn féllu úr úrvalsdeildinni í fyrra og leika nú í fyrsta skipti í sögu félagsins utan efstu deildar. Þetta eru gífurleg viðbrigði fyrir nítjánfalda Íslandsmeistara og stuðningsmenn þeirra, sem í ár heimsækja Sauðárkrók, Dalvík og Hornafjörð í fyrsta skipti í stað þess að fara í sínar árlegu ferðir í Vesturbæinn og á Akranes.

Breytingar á liði Vals frá því í fyrra eru miklar. Á annan tug leikmanna er horfinn á braut og skörð þeirra eru að mestu leyti fyllt með yngri piltum. Ejub Purisevic, fyrrum Bosníumaður sem hefur náð frábærum árangri með Sindra, er þjálfari og leikmaður Vals og undir hans stjórn komst liðið í úrslit Reykjavíkurmótsins og leikur til úrslita í deildabikarnum í sumar.

Auk Ejubs mun Arnór Guðjohnsen verða í lykilhlutverki í liðinu í sumar. Þriðji máttarstólpinn, Kristinn Lárusson, er meiddur og löng fjarvera hans gæti reynst Valsmönnum afdrifarík. Ef Brian Welsh stendur undir væntingum yrði hann góð búbót fyrir reynslulitla vörn liðsins sem reyndar hefur fengið færeyska landsliðsmanninn Pól Thorsteinsson.

Það er ekki sjálfgefið að Valur endurheimti sæti sitt í úrvalsdeild og á Hlíðarenda verða menn að vera viðbúnir því að það geti tekið tvö ár að komast í hóp þeirra bestu á ný.

Víkingar sterkari en í fyrra?

Það kom talsvert á óvart þegar Víkingar unnu sig upp í úrvalsdeildina fyrir tveimur árum, en það var hinsvegar enginn hissa þegar þeir féllu jafnharðan aftur. Þeir mæta í 1. deildarslaginn með dýrmæta reynslu þessara tveggja ára á bakinu. Með tilkomu Zorans Miljkovics og Freys Karlssonar nú skömmu fyrir mót eru þeir líklega komnir með sterkara lið en það sem féll í fyrra. Zoran er mikill sigurvegari, ferill hans með ÍA og ÍBV segir allt sem segja þarf um það. Víkingsvörnin með hann og hinn efnilega Val Úlfarsson í aðalhlutverkum verður ekki árennileg. Á móti kemur að fyrirliðinn Þrándur Sigurðsson hefur lagt skóna á hilluna. Sumarliði Árnason er alltaf líklegur til að skora mörk en styrkur Víkinga er þó fyrst og fremst liðsheildin, jafnir og baráttuglaðir strákar sem stóðu sig vonum framar í mörgum leikjum í fyrra.

FH-ingar eru sigurstranglegir

FH-ingar mæta til leiks enn eitt árið með það að markmiði að þeir þurfi aðeins að bæta sig um eitt sæti til að vinna sig upp í efstu deild en þaðan féllu þeir 1995. Þrjú undanfarin ár hafa þeir endað í þriðja sætinu.

FH-ingar hafa styrkt sig nokkuð og þar standa upp úr Ólafur Adolfsson, fimmfaldur Íslandsmeistari með Skagamönnum, sem tók skóna fram í vetur eftir eins árs hlé, og Heimir Guðjónsson, KR-ingur til margra ára, sem lék undir stjórn Loga Ólafssonar hjá ÍA í fyrra.

FH-ingar hafa verið með firnasterka yngri flokka undanfarin ár og fyrstu merkin um það gætu komið fram í meistaraflokksliði þeirra í sumar. Í hópinn eru komnir nokkrir af þessum bráðefnilegu og sigursælu piltum og þó þeir verði ekki í stórum hlutverkum í ár er framtíðin björt hjá FH. Ekki má gleyma því að Hörður Magnússon, sem hefur skorað 152 deildamörk á 17 ára ferli í meistaraflokki, er enn í fullu fjöri og líklegur til að lauma inn nokkrum mörkum enn fyrir þá svarthvítu. Það hefur verið sagt um FH-inga að ef þeir fari ekki upp í ár, fari þeir aldrei upp, og þeir hljóta að teljast sigurstranglegasta lið deildarinnar í upphafi móts.

Erfiðara hjá ÍR í ár

ÍR-ingar eru enn í sárum eftir að þeir klúðruðu úrvalsdeildarsætinu síðasta haust á illskiljanlegan hátt. Þrjú töp í þremur síðustu leikjunum þar sem einn sigur hefði dugað komu í veg fyrir að þeir væru að leika í annað skipti í efstu deild þetta árið. Þar fór gullið tækifæri forgörðum því ljóst er að 1. deildin er mun sterkari í ár en í fyrra og möguleikar ÍR á að vinna sig upp eru mun minni. Þó Breiðhyltingar séu með áþekkan leikmannahóp og í fyrra verður baráttan mun erfiðari.

ÍR-ingar skoruðu manna mest í 1. deildinni í fyrra en þeir hafa misst sinn hættulegasta sóknarmann, Sævar Þór Gíslason, yfir í Fylki. Helsta spurningin hjá þeim er sú hvort það skarð verður fyllt. Ef litið er raunhæft á lið ÍR er líklegast að það sigli um miðja deild. Það ætti aldrei að lenda í vandræðum og ef liðsheildin smellur saman, eins og oft hefur gerst hjá félaginu, gæti það blandað sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar.

Lítill hópur hjá Dalvík

Dalvík var það lið sem kom mest á óvart í 1. deildinni í fyrra. Fyrir tímabilið var norðanmönnum spáð falli og þeir sátu á botninum fyrsta þriðjung mótsins. En eftir það fóru hjólin að snúast, Dalvík átti á tímabili möguleika á sæti í úrvalsdeild og var glettilega nálægt því á lokasprettinum.

Dalvíkingar, með Jónas Baldursson þjálfara í lykilhlutverki, hafa farið langt á grimmum varnarleik og hættulegum skyndisóknum þar sem hinn ungi Atli Viðar Björnsson reyndist mörgum skeinuhættur í fyrra. Dalvíkingar byggja á litlum en þéttum kjarna heimamanna og nokkrum lánsmönnum frá Val og ÍBV. Breiddin er lítil og liðið má illa við skakkaföllum, eins og því að hefja mótið í ár með þrjá menn í leikbanni.

Í ár búa Dalvíkingar við þær óvenjulegu aðstæður að hafa æft á grasi frá 10. maí, auk þess sem þeir stóðu sig vel í deildabikarnum. Sem fyrr verður erfitt að brjóta þá niður og þeim hentar vel að spila gegn sterkari liðum, þeir unnu t.d. fjóra af sex leikjum sínum gegn þremur efstu liðum deildarinnar í fyrra, þar af bæði Fylki og Stjörnuna á útivelli.

KA með sterkan kjarna

Hjá KA eru loksins merki um að félagið sé að rétta úr kútnum eftir áratugar deyfð. Í kjölfar Íslandsmeistaratitilsins 1989 lá leiðin niður á við, KA féll 1992 og hefur síðan verið nær því að detta niður um eina deild í viðbót en að komast aftur upp. Í ár gæti Akureyrarliðið loksins stigið stórt skref í átt til endurreisnar undir stjórn eins reyndasta atvinnumanns Íslands, Þorvalds Örlygssonar, sem er kominn á heimaslóðir sem þjálfari og leikmaður eftir áratugar fjarveru.

KA hefur líka fengið Pétur Björn Jónsson frá Svíþjóð en hann og Jóhann H. Traustason skoruðu saman 13 mörk í deildabikarnum í vor. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson var meiddur í allt fyrrasumar og nýttist lítið en með hann, Ásgeir Má Ásgeirsson, Patric Feltendal, Dean Martin og Slobodan Milisic innanborðs er ljóst að KA hefur mjög sterkan kjarna leikmanna sem eiga að geta komið liðinu í toppbaráttuna.

Gjörbreytt lið Skallagríms

Skallagrímur úr Borgarnesi hefur orðið fyrir mestum skakkaföllum allra liða í 1. deildinni. Níu fastamenn frá síðasta ári eru horfnir á braut og aðeins átta leikmenn eru eftir sem spiluðu með liðinu í fyrra. Á tímabili í vetur var útlitið mjög svart hjá Borgnesingum en nýr þjálfari þeirra, Óli Þór Magnússon, hefur safnað liði úr ýmsum áttum.

Skallagrímur hefur endurheimt sinn mesta markaskorara, Valdimar K. Sigurðsson, eftir eins árs dvöl hjá Fram. Valdimar hefur skorað 128 deildamörk fyrir Borgnesinga og sýndi í deildabikarnum að hann veit enn hvar markið er að finna. Auk hans verða lykilmenn liðsins í sumar þeir Gunnar Magnús Jónsson og Aleksandar Linta, fyrrum Skagamaður, sem leikur áfram með liðinu.

Skallagrími er spáð falli í upphafi móts og á þeim bænum verður það markmið númer eitt, tvö og þrjú að forðast þau örlög.

Ásgeir stígur á bremsurnar

Þróttarar úr Reykjavík sluppu fyrir horn á síðustu stundu í fyrra þegar fall í 2. deildina blasti við þeim. Það er staða sem engan óraði fyrir á miðju sumri 1998 þegar liðið var á góðri siglingu um miðja úrvalsdeildina. Niðursveiflan frá þeim tíma er mikil, félagið lenti í talsverðri kreppu bæði innan vallar og utan, og Ásgeir Elíasson, með alla sína reynslu, fær það erfiða verkefni að stíga á bremsurnar og koma Þrótti á rétta braut á ný.

Leikmannahópur Þróttar látið á sjá frá því í fyrra og margir af burðarásunum eru horfnir á braut. Þróttarar binda nokkrar vonir við að Írinn ungi, Charlie McCormick, verði ágengur við mark mótherjanna en hann hefur verið drjúgur í vorleikjunum. Það má búast við því að hjá Þrótti snúist sumarið um það að ná jafnvægi á ný og lenda ekki í vandræðum í neðri hluta deildarinnar.

Tindastóll öllum erfiður

Tindastóll er kominn í næstefstu deild á ný eftir sjö ára fjarveru þar sem "Stólarnir" eyddu þremur árum í 3. deild. Þeir unnu afgerandi sigur í 2. deildinni í fyrra, fengu tíu stigum meira en næsta lið og skoruðu 61 mark gegn 12. Lið sem fara svo sannfærandi upp í 1. deildina standa sig yfirleitt vel fyrsta ári og Tindastóll á að geta haldið sjó í ár þó ólíklegt sé að liðið geri meira en það.

Stærsta spurningamerkið er hvernig liðinu gangi að skora mörk þar sem þeir Sverrir Þór Sverrisson og Unnar Sigurðsson eru horfnir á braut en þeir gerðu samtals 28 mörk í fyrra. Í staðinn eru hinsvegar komnir sex leikmenn sem hafa verið sterkir í neðri deildunum, þar af tveir vanir markaskorarar, Sigurður Valur Árnason og Hörður Guðbjörnsson. Þá er brasilískur miðjumaður væntanlegur á Krókinn og Bandaríkjamennirnir tveir spila áfram með liðinu. Tindastóll er með líkamlega sterka leikmenn og verður öllum erfiður andstæðingur, eins og lið úr úrvalsdeild fundu fyrir í deildabikarnum.

Erfitt að skora hjá Sindra

Sindri frá Hornafirði er í 1. deild í fyrsta skipti en frammistaða liðsins í fyrra kom á óvart. Hornfirðingar komu þá upp úr 3. deildinni og fóru rakleiðis upp. Þeir voru agaðir og skipulagðir og unnu það afrek að fá aðeins 7 mörk á sig allt tímabilið.

Burðarásar hjá Sindra eru fjórir núverandi og fyrrverandi Bosníumenn. Að öðru leyti er lið Sindra byggt upp á heimamönnum, mörgum ungum en sem hafa leikið með meistaraflokki frá 15-16 ára aldri.

Sindri hefur misst mesta markaskorara sinn, Ármann Smára Björnsson, til Lilleström, og vandséð er hver á að fylla hans skarð. Hornfirðingar munu eflaust standa í öllum liðum með sterkum varnarleik og markvörslu en hætt er við að mörkin verði ekki mörg. Fyrir þá verður tímabilið ákveðið ævintýri, en til að það hljóti farsælan endi þarf allt að ganga upp.

Víðir Sigurðsson skrifar