Björgunarsveitarmenn við sprunguna sem Hollendingurinn féll ofan í.
Björgunarsveitarmenn við sprunguna sem Hollendingurinn féll ofan í.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐALSTEINN Árnason, einn fimmmenninganna sem tóku þátt í leiðangri björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri á Grænlandsjökul, komst heldur betur í hann krappan í upphafi leiðangursins, en hann féll ofan í sprungu í jöklinum eina 20 metra og lá þar...

AÐALSTEINN Árnason, einn fimmmenninganna sem tóku þátt í leiðangri björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri á Grænlandsjökul, komst heldur betur í hann krappan í upphafi leiðangursins, en hann féll ofan í sprungu í jöklinum eina 20 metra og lá þar pikkfastur í skafli. Hann telur einskæra heppni og góða og trausta félaga hafa orðið sér til bjargar.

Félagarnir fimm, Aðalsteinn, Halldór Halldórsson, Leonard Birgisson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Sæmundsson, fóru í síðustu viku í leiðangur til Grænlands þar sem freista átti þess að ná upp líki Hollendings sem féll í sprungu á jöklinum. Ferðaskrifstofa hafði skipulagt þangað ferðir fyrir fjallgöngufólk og voru búðir þess skammt frá Einar Mikaelsenfjalli, sem er í um 360 kílómetra fjarlægð suður af Scoresbysundi. Búðirnar voru í um 1.400 metra hæð, en slysstaðurinn var þar um 500 metrum ofar. Í hópnum var þekktur fjallamaður, Roland Naar, ásamt félaga sínum, frænda konu sinnar, en það var hann sem féll ofan í sprunguna og lést. Roland er reyndur á þessu sviði, hefur m.a. farið í þrjá leiðangra á Everest, gengið á K2, á Suðurpólinn og yfir Grænlandsjökul svo dæmi séu tekin.

Fimmmenningarnir komu sér upp búðum um 500 metrum neðan við slysstaðinn og héldu síðan rakleiðis þangað. Aðalsteinn, Sigurður og Roland fóru fyrstir upp, en hinir drógu þyngri búnað og komu í kjölfarið. Aðalsteinn sagði að ferðin upp hefði verið nokkuð erfið, enda mikill nýfallinn snjór. Þeir komu sér fyrir í um 100 metra fjarlægð frá sprungunni sem Hollendingurinn féll ofan í og hófu þegar að búa sig undir að síga ofan í hana.

Sá skelfingarsvipinn sem kom á félaga mína

Aðalsteinn tryggði Roland í línu á belti sínu, en hann þekkti svæðið best. Hann gekk í átt að sprungunni og stakk niður snjóflóðastöngum í hverju skrefi til að tryggja að hvergi væru sprungur. "Við töldum okkur 100% örugga, það væru engar sprungur á þeirri leið sem við þyrftum að fara frá búnaðarstöðinni að þessari sprungu sem við vorum að fara ofan í," sagði Aðalsteinn, en hann sagði að leiðangurinn hefði haft varkárni í fyrirrúmi, þannig hefðu allir verið bundnir saman.

"Ég var að vinna við frágang á línu og þurfti að ná í búnað neðan til á svæðinu þegar óhappið varð," sagði Aðalsteinn. Hann sagði að sprungan hefði legið langsum en ekki þvert eins og oftar er. "Ég taldi mig á tryggu svæði þegar ég lagði af stað, en líklega hefur verið eitthvað þykkra snjólag og ís yfir þessari sprungu en annars staðar," sagði Aðalsteinn, en það skipti engum togum, snjórinn gaf sig, sprungan opnaðist og hann féll ofan í hana. "Ég náði að krafsa tvisvar í brúnina áður en ég féll niður og ég náði því líka að sjá skelfingarsvipinn sem kom á félaga mína áður en ég hvarf ofan í sprunguna. Halldór stóð nánast alveg upp við mig og reyndi að grípa í mig, en þetta gerðist svo snöggt að það þýddi ekkert, enda hefði ég þá sjálfsagt dregið hann niður með mér," sagði Aðalsteinn.

Hélt ég væri að grafast lifandi í snjóflóði

Hann sagði að sprungan hefði verið mjög þröng, hann hefði getað þrýst bakinu að öðrum vegg hennar og hnjánum í hinn og þannig getað dregið úr fallinu fyrst í stað, en svo opnaðist hún meira og hann hrapaði eftir það í fríu falli þar til hann stöðvaðist þegar sprungan fór að þrengjast aftur. "Ég lenti liggjandi á vinstri hliðinni og það hrundi yfir mig þó nokkuð af snjó sem ég grófst í og ég hélt í fyrstu að ég væri að grafast lifandi í snjóflóði ofan í sprungunni og það var hræðileg tilhugsun. Ég fór strax að reyna að hreyfa mig og rífa mig lausan og náði að koma höfðinu upp úr og hægri hendinni, en að öðru leyti var ég grafinn fastur í snjóinn, alveg gjörsamlega kíttaður niður. Það vildi mér til happs að lína sem við höfðum verið með uppi og var laus hrundi niður í sprunguna með mér og um leið og ég losaði höndina upp úr snjónum náði ég í endann á henni og vafði henni strax kirfilega utan um höndina og í greipina og kallaði upp til félaga minna að tryggja hinn endann og brugðust þeir skjótt við.

Ég sá fljótt að ég myndi ekki geta losað mig sjálfur úr snjónum, ég kom hendinni engan veginn að beltinu til að festa línuna. Þannig að ég kallaði upp til félaganna og bað þá að síga niður eftir mér. Ólafur kom niður skömmu síðar og batt okkur saman. Þegar þeir byrjuðu að draga mig upp snerist upp á líkamann, ég var kolfastur líkt og ég lægi í steypu, þannig að ég orgaði upp og bað þá að hætta. Ólafur gat grafið mig upp úr snjónum, hann notaði bara hendurnar og sparkaði upp snjónum með fótunum. Við losuðum mig úr skíðunum og að því búnu var ég dreginn upp. Það var mikið um faðmlög á brúninni þegar upp var komið," sagði Aðalsteinn.

Þar sem hann sat fastur í sprungunni á um 20 metra dýpi og leit niður sagðist hann bara hafa séð ofan í svart hyldýpi. "Það eina sem ég hugsaði um var að bjarga mér, bæði þegar ég var að falla niður og eins þegar ég lá fastur í snjónum ofan í sprungunni, lífshvötin er svo sterk," sagði Aðalsteinn. Hann sagðist í raun aldrei hafa verið hræddur, um leið og hann náði taki á línunni sagðist hann hafa orðið viss um að hann myndi lifa þetta af. "Þegar ég sá að ég gæti ekki bjargað mér sjálfur upp treysti ég á félaga mína og þeir brugðust ekki, þeir gerðu þetta með glæsibrag og það var aldrei neitt fum á þeim," sagði Aðalsteinn, en alls liðu um 40 mínútur frá því hann féll ofan í sprunguna þar til hann var kominn upp aftur. Þótt ótrúlegt megi virðast slapp hann algjörlega ómeiddur úr þessum hildarleik, með einungis tvo litla marbletti á olnboga. "Kuldinn var verstur, þótt ég væri vel klæddur varð mér fljótt alveg ógurlega kalt, ég var dálítið blautur þegar þetta gerðist, sveittur eftir gönguna upp og það settist fljótt að mér kuldi, ég var eins og freðfiskur þarna ofan í sprungunni."

Ekkert tóm til að hugsa um þetta

Aðalsteinn segir að sér hafi ekki gefist tóm til að hugsa mikið út í atvikið. "Við vorum að vinna að verkefni og um leið og búið var að bjarga mér upp fórum við í það, þannig að ég hafði engan tíma til að velta mér upp úr þessu," sagði hann.

Leiðangur þeirra félaga í Súlum bar ekki árangur sem kunnugt er, einungis skíðastafur Hollendingsins fannst í sprungunni sem hann féll í. Félagarnir úr Súlum komu heim til Akureyrar á miðvikudagsmorgun, en þeir þurftu að bíða í nokkra daga á jöklinum þar sem skíðavélin gat ekki lent þar vegna veðurs. "Við ákváðum að segja ekki nokkrum einasta manni frá þessu fyrr en við værum komnir heim, við vildum ekki valda okkar fólki heima óþarfa áhyggjum," sagði Aðalsteinn sem nú er svo sannarlega reynslunni ríkari.