Óli Jóhann Kristinn Magnússon fæddist í Reykjavík 16. febrúar 1948. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 3. maí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Háteigskirkju 11. maí.
Mig langar að minnast Óla vinar míns með nokkrum línum. Þetta var erfitt krabbamein sem hann þurfti að stríða við, en ég sakna hans mikið. Ég veit að læknarnir hjálpuðu honum sem þeir gátu. En ég veit að honum líður vel þar sem hann er núna. Þegar ég hitti hann niðri á Hlemmi síðast sagði hann við mig: "Gulla mín, þú skalt ekki hafa áhyggjur af mér." Og þegar ég kom niður á Lækjartorg og hann lagði vagninum sá hann mig og kom til mín og talaði við mig, og vildi hann að ég kæmi með sér eina ferð og gerði ég það. En ferðirnar urðu fleiri, og stundum fór ég með honum nokkrar ferðir. Þegar ég ætlaði að gera eitthvað, þá sagði Óli mér: "Þú skalt ekki gera það." Hann leiðbeindi mér alltaf.
Ég vil þakka þér fyrir ferðirnar sem þú gafst mér. Óli minn, ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Blessuð sé minning þín, guð leyfi þér að hvílast í friði. Ég samhryggist Guðnýju og börnum ykkar. Guð styrki þau í sorg þeirra. Blessuð sé minning þín.
Þín vinkona,
Guðlaug.
Guðlaug.