Þórbjörg Elísabet Magnúsdóttir Kvaran fæddist á Sæbóli í Aðalvík 4. mars 1923. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 11. maí síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskirkju 18. maí.

Þegar reginöfl ríkja kenna menn smæðar sinnar og vanmáttar. Þekkingu og vísindi þrýtur mátt. Takmarkanir hinnar mannlegu visku verða bersýnilegar. Fólk leitar svara sem ekki fást. Lífsgildin verða trú og von. Aflvaki lífsins verður lífið sjálft. Væntingar bærast með fólki um nýjan heim og nýjar víddir utan mannlegs skynjunarheims, að jarðlífi loknu. Hinn forgengilegi efnisheimur víkur.

Góa móðursystir mín er látin. Þessi yndislega, skarpgreinda kona sem var full af kímni og hlýju. Heilsteypt kona sem mátti ekkert aumt sjá. Fylgdist af einlægum áhuga með gengi allra vina sinna og fjölskyldumeðlima. Lét sig mál þeirra varða og fylltist innilegri gleði yfir velgengni þeirra. Var fyrst á staðinn ef hjálpar þurfti með. Hún var stoð og stytta móður minnar og fjölskyldu. Á einhvern hátt tókst henni ætíð að gera gott betra. Þegar lífshlaupi lýkur er litið til baka. Góa hefur horft stolt um öxl. Hún skilur eftir sig maka og afkomendur þar sem hver manneskjan er annarri betri. Mannkostafólk, eins og hún. Það vita allir er til þekkja. Fjölskyldan var lífsfylling frænku minnar. Aflvaki hennar.

Nú leitar frænka mín nýrra landa. Á þeirri vegferð fylgja henni manngildin og hjartahlýjan. Þess nýtur samferðafólk hennar á áfangastöðum.

Ég kveð frænku mína með söknuði og virðingu. Þakklátur fyrir að þekkja þessa konu.

Guð blessi Onn og aðstandendur á erfiðum tímum.

Heill og hamingja finni ykkur og fylgi.

Gísli T.

Gísli T.