Jón Arnar Magnússon vann fimmfaldan  sigur á meistaramótinu.
Jón Arnar Magnússon vann fimmfaldan sigur á meistaramótinu.
TUGÞRAUTARMAÐURINN Jón Arnar Magnússon stóðst þá prófraun að komast heill í gegnum meistaramót Íslands um helgina. Hann gerði gott betur og sigraði í öllum fimm greinunum sem hann tók þátt í og undirbúningur hans fyrir Ólympíuleikana er þar með á réttri braut.

Ég er mjög sáttur við árangurinn á mótinu. Þetta eru leiðindaaðstæður, dálítið rok og erfitt að átta sig á því í þessum sprettgreinum. En ég er heill og þetta gekk mjög vel og lítur bara vel út," sagði Jón, sem náði stökki upp á 8,01 metra í langstökki.

"Ég hefði viljað hafa tvö önnur stökk með sem voru lengri en þau voru ógild en það er mjög erfitt að stjórna því þegar maður er að keppa í mörgum greinum í einu," sagði Jón en aðeins munaði nokkrum millimetrum að hin stökkin hefðu verið lögleg þrátt fyrir að kappinn keppti samtímis í 100 m hlaupi, langstökki og 110 m grindahlaupi. "Það eru sex ár síðan ég stökk svona langt síðast en ég hef verið að vinna í greininni og þetta er að koma aftur - vonandi komið til að vera núna, að það líði ekki önnur sex ár," sagði Jón, sem hefur æft stíft að undanförnu.

"Ég hef verið að vinna í hraða og úthaldi og það er að skila sér núna og því verður haldið áfram alveg fram að Sydney. Þetta er búinn að vera frekar mikill álagstími núna," sagði Jón en þónokkuð er framundan hjá kappanum. Um næstu helgi keppir hann á alþjóðlegu móti í Talence í Frakklandi . "Þar verða allir þeir sterkustu nema Bandaríkjamennirnir. Miðað við gengið hérna fer ég með því hugarfari að bæta mig í þraut og ég sé ekkert sem á að koma í veg fyrir það, ekki nema maður klúðri einhverju sjálfur. Líkamlegt ástand er alveg nógu gott til þess en það væri þá bara andlegs eðlis sem myndi skemma fyrir manni. En ég vonast eftir að ég sé kominn með þroska og reynslu til að sigrast á því," sagði Jón Arnar, sem á þrettánda besta árangur ársins í tugþraut, sem hann náði í Götzis í byrjun júní.

"Mér líst bara mjög vel á framhaldið úr því ég komst í gegnum þetta án þess að finna fyrir meiðslum og ég er laus við öll þessi hnjösk sem ég er búinn að berjast við undanfarin ár."

Eftir mótið í Frakklandi mun Jón Arnar keppa á bikarmótinu hérna á Íslandi 11.-12. ágúst og í framhaldi af því heldur hann til Sydney þar sem hann tekst á við lokaundirbúning fyrir leikana.

Íris Björk Eysteinsdóttir skrifar