SKRIFAÐ hefur verið undir endanlegt samkomulag um kaup Sæplasts á Atlantic Island ehf. Er Sæplast eina íslenska fyrirtækið í trollkúluframleiðslu eftir samruna félaganna. Sæplast hf. hefur greitt eigendum Atlantic Island ehf.

SKRIFAÐ hefur verið undir endanlegt samkomulag um kaup Sæplasts á Atlantic Island ehf. Er Sæplast eina íslenska fyrirtækið í trollkúluframleiðslu eftir samruna félaganna. Sæplast hf. hefur greitt eigendum Atlantic Island ehf. með hlutabréfum í Sæplasti en bréfin voru í eigu félagsins sjálfs. Hlutabréfin eru að nafnvirði tæpar 1,03 milljónir króna og var miðað við samningsgengið 9,0 við kaupin. Söluverðið er því 9,27 milljónir króna.

Atlantic Island ehf. hefur framleitt sprautusteyptar trollkúlur úr plasti til notkunar um borð í fiskiskipum og eru kúlurnar svipaðar þeim sem Sæplast hf. framleiðir á Dalvík. Áætluð heildarvelta Atlantic Island ehf. er um 24 milljónir króna og hafa um 60% framleiðslunnar farið á erlenda markaði. Þessi kaup eru í samræmi við áður útgefna yfirlýsingu stjórnenda Sæplasts hf. um að styrkja fyrirtækið enn frekar með fjárfestingum í rekstri sem tengdur er þeirri framleiðslu- og markaðsþekkingu sem félagið hefur yfir að ráða. Í fréttatilkynningu kemur fram að með kaupunum skapist möguleikar á hagræðingu í rekstri Sæplasts hf. en unnt verður að sameina framleiðslu Atlantic Island ehf. þeirri starfsemi sem nú er rekin á Dalvík án mikils aukakostnaðar.