Benjamín H. J. Eiríksson
Benjamín H. J. Eiríksson
LÁTINN er í Reykjavík dr. Benjamín H.J. Eiríksson hagfræðingur á nítugasta aldursári. Hann fæddist 19. október 1910, sonur Eiríks Jónssonar, sjómanns í Hafnarfirði, og konu hans, Sólveigar Guðfinnu Benjamínsdóttur.

LÁTINN er í Reykjavík dr. Benjamín H.J. Eiríksson hagfræðingur á nítugasta aldursári.

Hann fæddist 19. október 1910, sonur Eiríks Jónssonar, sjómanns í Hafnarfirði, og konu hans, Sólveigar Guðfinnu Benjamínsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932 og stundaði nám í Stokkhólmi og Moskvu á árunum 1933-1938. Framhaldsnám stundaði hann í Bandaríkjunum, fyrst við háskólann í Minneapolis og lauk síðan doktorsprófi í hagfræði frá Harvard-háskóla árið 1946.

Dr. Benjamín vann í hagfræðideild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington 1946-1951, var ráðunautur ríkisstjórnar Íslands í efnahagsmálum 1951-1953 og bankastjóri Framkvæmdabankans frá 1953 þar til hann lét af störfum árið 1965.

Dr. Benjamín lét snemma að sér kveða í þjóðmálaumræðunni, fyrst sem sósíalisti, en síðar sem eindreginn talsmaður frjáls markaðshagkerfis. Hann var hin síðari ár einkum kunnur af ritstörfum og liggja eftir hann allmargar bækur.

Árið 1942 kvæntist Benjamín eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristbjörgu Einarsdóttur. Þau hjón eignuðust fimm börn, en áður átti Benjamín dóttur með Veru Hertzsch, háskólanema í Moskvu. Ævisaga hans, Benjamín H.J. Eiríksson í stormum sinna tíða, kom út árið 1996 og vakti mikla athygli.