EYJAMENN tóku á móti Skagamönnum á laugardaginn var í leik sem fara átti fram í 14. umferð mótsins en var flýtt sökum þátttöku beggja liða í Evrópukeppni. Leikurinn var bráðfjörugur lengstum og má segja að fyrri hálfleikur hafi verið Skagamanna en sá síðari Eyjamanna. Eina mark leiksins skoraði ÍBV um miðbik síðari hálfleiks.

Ljóst var að lið Eyjamanna var nokkuð brothætt fyrir leikinn. Sterka leikmenn vantaði í liðið eins og markahrellinn Tómas Inga Tómasson, Kjartan Antonsson, sem vafalaust er að spila sitt besta tímabil frá upphafi, og svo Pál Guðmundsson á miðjuna. En maður kemur í manns stað og Steingrímur Jóhannesson kom aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa vermt bekkinn í nokkra leiki ásamt þeim Jóhanni Möller og Bjarna Geir Viðarssyni. Hvað lið Skagamanna varðar þá átti það undir högg að sækja því færeyska landsliðsmanninn Une Arge vantaði ásamt Reyni Leóssyni og Unnari Valgeirssyni. Það var því ánægjulegt að sjá unga og lítt reyndari leikmenn koma inn í lið beggja liða.

Leikurinn var bráðfjörugur og sýndu bæði lið fínt spil og þá sérstaklega Skagamenn í fyrri hálfleik. Þeir voru hreyfanlegir í sókn og vörn og voru að skapa sér mun beittari færi en heimamenn sem voru heppnir að fara ekki inn í hálfleik með mark á herðunum. Skagamenn með þá Hálfdán Gíslason í fremstu víglínu og þá Harald Hinriksson og Baldur Aðalsteinsson þar fyrir aftan voru að stríða Eyjamönnum með góðu spili en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði því Birkir Kristinsson varði meistaralega og hann sýndi það og sannaði að hann er ekki landsliðsmarkvörður fyrir ekki neitt.

En þrátt fyrir þungar sóknir Skagamanna í fyrri hálfleik þá gengu bæði lið inn í búningsklefa í leikhlé til að hlýða á ræður þjálfara sinna og er undirritaður ekki í vafa um að dúett þeirra Ólafs Þórðarsonar og Kristins R. Jónssonar hafi bergmálað vel inni í Herjólfsdal.

Óhætt er að segja að Eyjamenn hafi komið sem nýtt lið inn í síðari hálfleikinn því allt annað var að sjá til liðsins. Þeir voru ekki eins taugaóstyrkir og voru að spila eins og menn. Og það var síðan á 49. mínútu að Ingi Sigurðsson átti laglegt skot að marki Skagamanna sem hafnaði í hliðarnetinu. Og aðeins fjórum mínútum síðar átti Hlynur Stefánsson, fyrirliði ÍBV, skot í stöng.

Meiri hraði var nú kominn í leikinn og virtist það henta Skagamönnum vel því að um miðbik síðari hálfleiks var sannkölluð stórskotahríð að marki ÍBV. Fyrst var það Baldur Aðalsteinsson sem átti gott skot að marki en Birkir kýldi boltann frá marki og fyrir lappir Grétars Steinarssonar sem þrumaði að marki aftur en Birkir varði meistaralega á línu. Aðeins nokkrum mínútum síðar eiga Skagamenn tvö ágætisskot að marki en Birkir var vel með á verðinum og handsamaði boltann örugglega.

Eina mark leiksins kom síðan á 77. mínútu. Baldur Bragason tók hornspyrnu frá vinstri að marki ÍA og eftir mikinn darraðardans í vítateignum skoraði Hlynur Stefánsson örugglega með góðu skoti. Staðan orðin 1:0 Eyjamönnum í vil.

Þrátt fyrir færi á báða bóga það sem eftir lifði leiks var markareikningurinn tæmdur og niðurstaða leiksins því góður Eyjasigur á annars sprækum Skagamönnum.

Hjá Skagamönnum var Sigurður Jónsson eins og klettur í vörninni framan af leik og var að leysa úr mörgum flækjum virkilega vel og má segja að hann sé ókrýndur leiðtogi Skagaliðsins. Einnig stóðu þeir Grétar Steinarsson og Baldur Aðalsteinsson í sókn Skagamanna ásamt fyrirliðanum Alexander Högnasyni sig prýðilega.

Hjá Eyjamönnum stóð títtnefndur Birkir Kristinsson sig manna best með frábærri markvörslu. Einnig stóðu unglömbin Páll Almarsson og Hjalti Jónsson sig virkilega vel og nokkuð ljóst að þeir eru framtíðarmenn í liði ÍBV. Síðan stóðu gömlu kempurnar Ingi Sigurðsson og Hlynur Stefánsson fyrir sínu og þá sérstaklega Hlynur Stefánsson.

Undirritaður spyr sig eftir þennan leik hvort ekki sé eitthvað að í íslenskri knattspyrnu þegar leikmenn, sem eru tæplega fertugir, standa sig manna best í leikjum í efstu deild karla?

Skapti Örn Ólafsson skrifar