Guðmundur Steinarsson, miðherji Keflvíkinga, sem er markahæstur með 8 mörk, á hér í höggi við miðverði KR - Bjarna Þorsteinsson og Þormóð Egilsson. Þórhallur Hinriksson í baksýn.
Guðmundur Steinarsson, miðherji Keflvíkinga, sem er markahæstur með 8 mörk, á hér í höggi við miðverði KR - Bjarna Þorsteinsson og Þormóð Egilsson. Þórhallur Hinriksson í baksýn.
"ÞETTA var bæði góður og sanngjarn sigur og ég get ekki annað en hælt mínum mönnum fyrir góða frammistöðu í leiknum," sagði Páll Guðlaugsson þjálfari Keflvíkinga.

Við lékum vel og hefðum með smá heppni getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik sem tókst ekki en við settum loksins mark í þeim síðari og ég held að sigur okkar hafi verið fyllilega verðskuldaður.

Það hefur skort stöðugleika í liðið að undanförnu en í þessum leik sýndu menn hvers megnugir þeir eru. Það hefur orðið talsverð endurnýjun í liðnu í sumar með yngri leikmönnum og þeir þurfa tíma til að aðlaga sig. Í þessum leik færði ég Þórarin Kristjánsson aftur á miðjuna þar sem hann stóð sig vel og eins vorum við með nýjan mann í vörninni.

Nýtt lið er ekki byggt upp á svipstundu - það þurfa menn að hafa í huga. Liðið hefur sýnt að það á fyllilega erindi í efstu deild og eins og við lékum í kvöld þá eigum við að vera í hópi þeirra bestu," sagði Páll Guðlaugsson ennfremur.

Klár í slaginn í næsta leik

"Það var eins og hnífi væri stungið aftan í lærið á mér og ég varð að fara útaf í síðari hálfleik," sagði Guðmundur Steinarsson, sóknarmaðurinn skæði í liði Keflavíkur, sem haltraði útaf í síðari hálfleik. Guðmundur var að leika vel og hrelldi oft varnarmenn KR. Hann sagðist þó vona að meiðsli sín væru ekki alvarlegs eðlis og að hann yrði klár í slaginn í næsta leik.

Úrslitin eru vitaskuld mikil vonbrigði

"Úrslitin eru vitaskuld mikil vonbrigði. Þeir náðu að setja mark sem okkur tókst ekki - sem vitaskuld var súrt," sagði Pétur Pétursson þjálfari KR dapur í bragði. "Við vorum að skapa færi en tókst ekki að nýtt eitt einasta þeirra. Við höfum skorað í öllum leikjum okkar í sumar en það gekk bara ekkert hjá okkur að þessu sinni. Við sofnuðum svo á verðinum augnablik og var refsað fyrir með marki og þar með öllum stigunum. Um þetta er ekki mikið meira að segja," sagði Pétur.

Markið þeirra var gott

"Við komum hingað svo sannarlega til að sækja öll stigin. En þetta fór nú á annan veg. Markið þeirra var gott - það verður ekki frá þeim tekið. Zoran fékk boltann einn og óvaldaður, hann náði að snúa og koma sér í góða stöðu. Skotið var hnitmiðað og ég átti ekki möguleika," sagði Kristinn Finnbogason markvörður KR um mark Keflvíkinga.

Björn Blöndal skrifar