Birkir Kristinsson, markvörður ÍBV, var að vonum ánægður í leikslok: "Sem betur fer gekk þetta upp hjá okkur í dag og sigurinn alveg lífsnauðsynlegur fyrir okkur því annars hefðum við setið eftir í neðri hlutanum.

Birkir Kristinsson, markvörður ÍBV, var að vonum ánægður í leikslok: "Sem betur fer gekk þetta upp hjá okkur í dag og sigurinn alveg lífsnauðsynlegur fyrir okkur því annars hefðum við setið eftir í neðri hlutanum. Núna erum við komnir á þann stað sem við teljum okkur eiga heima og má segja að næstu leikir séu hálfgerðir úrslitaleikir fyrir okkur ef við ætlum okkur að gera eitthvað í deildinni í ár. Hvað leikinn í dag varðar þá vorum við frekar lengi í gang og áttum í smá basli við Skagamennina, en Kiddi (Kristinn R. Jónsson) var með þrusuræðu í hálfleik sem hleypti meira blóði í okkar leik. En sigurinn í dag er heldur betur vítamínsprauta fyrir okkur, ég get ekki annað en verið sáttur við úrslitin," sagði Birkir í leikslok.

Fyrirliði Eyjamanna, Hlynur Stefánsson, hafði þetta að segja eftir leikinn: "Við vorum frekar daufir í fyrri hálfleik og má segja að við höfum verið dálítið heppnir að halda hreinu þegar við gengum inn í búningsklefa í hálfleik. En í síðari hálfleik var mun meiri barátta í leik liðsins og vilji til að sigra og við áttum ágætis marktækifæri. Ég var á því að það lið sem skoraði fyrsta mark leiksins myndi vinna leikinn og sigurinn datt okkar megin í dag. Það er því mikilvægt fyrir okkur að fylgja góðu gengi hjá okkur í undanförnum leikjum eftir, komast á stím og ógna þessum toppliðum í deildinni. Því ef við ætlum okkur titil í ár þá verðum við að vinna þessa leiki sem eftir eru, það er alveg klárt mál," sagði fyrirliði Eyjamanna.