LÁGT gengi evrunnar hefur orðið til þess að framfærslukostnaður í þeim Evrópusambandslöndum sem hafa tekið upp evruna hefur lækkað hlutfallslega gagnvart öðrum löndum og nú kostar til að mynda svipað mikið að lifa í München og í Kaíró segir í nýrri grein...

LÁGT gengi evrunnar hefur orðið til þess að framfærslukostnaður í þeim Evrópusambandslöndum sem hafa tekið upp evruna hefur lækkað hlutfallslega gagnvart öðrum löndum og nú kostar til að mynda svipað mikið að lifa í München og í Kaíró segir í nýrri grein á fréttavef BBC. Og það er reyndar orðið ódýrara að búa í Dyflinni en Lagos í Nígeríu að því er fram kemur í könnun sem Economist Intelligence Unit gerði.

Tókýó er enn sem fyrr dýrasta borg heimsins og kostar um 65% meira að búa þar en í New York. Og Japan er dýrt land því Osaka er í öðru sæti en Hong Kong í Kína í því þriðja.

Ósló, Lundúnir, Zürich og Reykjavík dýrastar í Evrópu

París, sem lengi vel var dýrasta borgin í evru-löndunum og sjöunda dýrasta borg heimsins, hefur nú hrapað niður í tólfta sæti en París hefur verið meðal tíu dýrustu borga heimsins allt frá árinu 1991. Lundúnir er sjötta dýrasta borg heimsins og hefur hækkað um þrjú sæti vegna sterkrar stöðu sterlingspundsins. Ósló hefur leyst Zürich af hólmi sem dýrasta borg Evrópu og er hún komin í fimmta sæti yfir dýrustu borgir heimsins en Zürich féll niður í níunda sæti. Reykjavík kemst naumlega inn á listann yfir tíu dýrustu borgir heimsins í tíunda sæti en Reykjavík er jafnframt fjórða dýrasta borg Evrópu á eftir Ósló, Lundúnum og Zürich. Af borgum Evrópu er ódýrast að búa í Búdapest en framfærslukostnaður þar er um helmingi minni en í New York.